Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Álfheiðarskora

Úr Wikiheimild

Það er kunnugt að í Vatnsársundum er selsátur úr Reynishverfi; var þar verið í hellrum. Einn selhellirinn heitir Vömb; í honum er hola ein sem Álfheiðarskora er kölluð; hún þrengist eftir sem innar kemur og enginn veit hvað langt hún nær, því hún verður fljótt þrengri en svo að hún verði smogin af stærri skepnu en hundi eða ketti.

Svo er sagt að eitthvört sinn skyldi kona ein gæta sels, en allt fólk annað fór heim til bæja. Þegar kona þessi var á gangi úti sér hún hvar kemur maður, furðu mikill vexti, og gengur hann við stöng. hann stefnir til seljanna; verður þá konan hrædd, fer inn í selið og felur sig í áðurnefndri bjargskoru. Maðurinn hafði veður af konunni, kemur inn í selið og leitar vandlega, en finnur ekki; fer hann síðan út og löngu síðar þegar konan ætlaði hann væri allur í burtu fer hún út úr selinu, en þá var maðurinn skammt frá selinu; varð þá konan dauðhrædd, fer inn aftur og treður sér svo langt inn í fyrrnefnda skoru sem hún mögulega getur, og þegar hún hefur gengið frá sér kemur hinn mikli maður inn í selið og leitar nú miklu vandlegar en í fyrra skiptið og eins í skorunni. En þar hann var mikill vexti og þar að auk dimmt í skorunni varð hann ekki var við konuna þar, hafði þó grun af að hún væri þar, tekur því það ráð að hann stendur fyrir utan skoruna og pjakkar með stönginni inn í skoruna og segir við sjálfan sig að fyrst hún vilji ei koma til sín með góðu þá skuli hann ganga frá henni dauðri þarna sem hún er komin. Þetta gengur lengi, en þó kom broddurinn aldrei beinlínis í hana svo að skaði yrði að. Þegar þetta hafði lengi gengið fór maðurinn loks í burt úr selinu, en áður hann fór út spillti hann öllu, smáu og stóru, sem í selinu var. En konan þorði nú ekki að hreyfa sig og lá hún þarna kyrr þar til selfólkið kom að heiman; var þá hinn mikli maður allur í burt og varð ekki vart við hann síðan. En konan var orðin stirð mjög og voru átján stungur á fatinu hennar, en hana sakaði lítið eða ekki.

Af þessum atburði er sagt að Álfheiðarskora taki nafnið.