Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Ögmundargat

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ögmundargat

Á Hólmum í Reyðarfirði var eitt sinn fjármaður er Ögmundur hét; og bar svo við eitthvert sinn, þá hann var með féð Eskifjarðarmegin og beitti því á þara í bás eða viki einu við sjóinn, og var öðrumegin þunn brík eða kambur sem gekk fram í sjó. Nú er að segja frá Ögmundi að hann var með féð þarna þar til að hann flæddi uppi svo hann sá sér ekki burtfarar von; en brim var að vaxa og sér hann nú er ekki nema dauðinn fyrir dyrum. Tekur hann það þá til bragðs að hann pjakkar með broddstaf sínum gat í gegnum fyrrnefnda brík og komst þar svo í gegnum með allt féð og er ekki um hann getið meira. En dyr þær eða gat er hann gjörði hefur verið við hann kennt; var það svo stórt að með stórstraumsflóði og ládeyðu var hægt að skjóta þar í gegnum fjögra manna fari. Nú fyrir fáum árum braut brim stykki framan af bríkinni upp hjá gatinu, en sagan um hinn úrráðagóða smala verður lengur við líði.