Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Ölmóðsey

Úr Wikiheimild

Skammt fyrir sunnan Minnanúp liggur ey sú í Þjórsá sem Ölmóðs- eða Ólmóðsey heitir. Báðumegin hennar eru fossar og flúðir og klettar víðast með ánni. Þó er sinn ferjustaður hvorumegin í eyna, báðir tæpir og vandfarnir, þó er sá skárri sem að vestan er. Á eynni suðvestanvert er dálítil tóftarrúst. Ekki sést skil á lögun hennar og er því líkast sem rofinu hafi verið kastað saman í dyngju.

Í hring utan um tóftina liggur digur garður eða bali. Þessar rústir nefna menn „bæinn hans Ölmóðs“ eða „leiðið hans Ölmóðs“. Það er sagt að Ölmóður sá sem eyin er kennd við hafi riðið ótemju á sund út í hana, og er það engan veginn áræðilegt. Er sagt hann hafi átt að takast af lífi, en verið gjörður kostur á að vinna þetta til lífs sér og hafi hann gjört það. Aðrir segja að Ölmóður hafi verið sekur skógarmaður og hafi hafzt við í eynni um hríð og verið þar drepinn. Þessa frásögn styrkja tóftirnar. Hefir Ölmóður gjört sér þar skála og virki um hann og er þá hringbalinn leifar af því. Og þegar Ölmóður var drepinn hafa menn hulið hræ hans í skálatóftinni og hrundið henni saman í hrúgu yfir hann.