Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Örnefni í Njarðvík

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Örnefni í Njarðvík

Fyrir innan bæinn í Njarðvík liggur garður þvert undan fjalli, sem heitir Þorragarður. Hann er svo hár ennþá að hann tekur manni í mitt lær. Í söguþætti Gunnars Þiðrandabana segir að Ásbjörn vegghamar hafi staðið þar að garðverki þá Kórekur og synir hans komu ofan yfir og skutu að honum skógvöndlum áður bardaginn varð. Utan við garð þenna eru kallaðir Haugar og sagt þar hafi bardaginn byrjazt. Þar eru nokkrir haugar á harðvellisbala.

Þar upp af í fjallinu eru hjallar tveir, kallaðir Gunnarshjallar. Þar leyndist Gunnar í dökku tjaldi eftir dráp Þiðranda, sem segir í Gunnars þætti, og þar var hann þá Droplaugarsynir komu að leita hans; og þaðan eltu þeir hann út eftir fjöllum unz hann hljóp í sjóinn og synti í sker þau sem liggja á miðri víkinni, og hvíldi sig þar. Þau heita síðan Gunnarssker.

Þiðrandaþúfa er kölluð í túninu þar sem Þiðrandi átti að sitja þá Gunnar skaut hann; um hana hefir verið garður hlaðinn. Þaðan hér um teigshæð eru fornar tóftir sem líklega hafa verið Austmannabúðir, því Gunnar kom út úr búð sinni þá hann skaut Þiðranda.

Fljótsdæla saga getur um að húskarlar vóru inn á Virkisstöðum, þar er nú kallað Sel; að líkindum hafa fornir bændur í Njarðvík haft þar verkmenn á búi, þar eru rústir miklar og garðar, líka mógrafir.

Fjall eitt þar inn og upp af heitir Sönghofsfjall. Þar er í sögnum að upp á því hafi staðið hof, og vottur sést til þess ennþá því útnorðan á því er samanborið grjót mikið, en lítill vottur sést til tóftar; þar niður frá norðan í fjallinu er gjá ein kölluð Klukkugjá; þar sögðust gamlir menn hafa séð eins og klukkur hátt upp í henni utan megin. Sagt er að fyrr á tímum hafi Njarðvíkur og Óss smalar getað brotið eitthvað af þeim og haft þess vegna lengi kopar, því þeir voru koparsmiðir.