Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Þjófahellir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þjófahellir

Þar sem þjóðvegurinn liggur austur úr Heiðardal og austur úr Vatnsársundum er skammt fyrir ofan veginn hellir sem heitir Þjófahellir; hann kvað vera ákaflega stór þó nú sé að mestu gróið fyrir dyrnar.

Svo er sagt að í fyrndinni hafi bóndi búið á Litluheiði sem er hjáleiga frá prestssetrinu Heiði. Þessi bóndi hélt unga og efnilega vinnukonu. Eitthvört kvöld nálægt jólaföstubyrjun í fögru veðri og tunglsskini fór hún að taka inn þvott í vökulokin. Hún kom ekki inn um nóttina, en daginn eftir var hennar leitað og fannst hún hvörgi, og þó lengur væri leitað þá hvörki fannst hún eða spurðist til hennar, og svo liðu þrjú ár að ekkert spurðist til hennar, en þegar þrjú ár voru liðin var það eitt kvöld nálægt í sama mund er hún hafði horfið, vildi svo til að fólk var á gangi á Litluheiði að gefa mjólkurkúm eftir vöku; kom áðurnefnd vinnukona inn í bæinn og var með öndina í hálsinum og uppgefin af göngu og undireins sást til fjölmargra manna sem allir stefndu heim að Litluheiði, en með því að fólk var á gangi þá sneru þeir aftur við túngarðinn. Fólkið varð öldungis hissa að hún sem allir ætluðu fyrir löngu dauða skyldi nú koma eins snögglega eins og hún fór og spurðu hana hvar hún hafði dvalið í þrjú ár.

Hún sagði: „Þegar ég var að taka saman þvottinn kom að mér maður mikill vexti; hann greip mig strax upp, en í sama vetfangi stakk hann upp í mig vettlingi sínum og því gat ég hvörki hljóðað eða kallað um hjálp. Þessi maður bar mig austur frá bænum og þá sá ég að mennirnir voru fjórir. Þeir skiptust um að bera mig og héldu beina leið austur í Vatnsársund og námu loks staðar sunnan megin í sundunum. Þar var hellir mikill. Þar fóru þeir inn með mig, kveiktu þar ljós, buðu mér mat og bjuggu um sig í tómum gæruskinnum því ekki var annað til. Í fleti þessu létu þeir mig liggja á milli sín og munu þeir lengi ekki hafa sofið allir í senn. Eigi skorti mig gott atlæti og mat mátti ég hafa nógan, sem var kjöt og silungur því annað var ekki til. Svo gættu þeir mín nákvæmlega að þegar þeir fóru til aðdrátta var jafnan einn þeirra heima til að gæta mín svo mér var ómögulegt að strjúka frá þeim. Þannig lifði ég hjá þeim í þrjú ár. Mig tóku þeir einungis til að þjóna sér og ekki vildu þeir láta neitt að mér ganga, svo ég sá ekkert annað ráð en að láta ekki á öðru bera en ég væri allvel ánægð svo með seinsta voru þeir farnir að trúa mér nokkurn veginn.

Það var siður þeirra að vera lítið á gangi á daginn, en á nóttunni fóru þeir oft til veiða. Lítið var fémætt í hellinum og ekkert fé höfðu þeir, en tóku í þess stað öðruhvörju kindur að skera úr ýmsum áttum, en silungsveiði stunduðu þeir þegar kostur var. Nú í haust var það fyrst að þeir voru farnir að fara allir til aðdrátta, þó svo aðeins að þeir færu ekki lengra en það að þeir sæju til mín ef ég færi. Loks bar svo til að þeir fóru allir til silungsveiða, veiddu vel, en komu gagndrepa, svo ekki var þurr þráður á þeim; hafði ég þá heitan mat á reiðum höndum; varð þeim því mjög vært og sofnuðu allir; fór ég þá eins og vant var að þvo föt þeirra því ekki var fatnaður til skipta. Ég þvoði og vatt föt þeirra og lét þau til þeirra því þeir vildu ætíð hafa þau við hendina. En í þetta sinn sneri ég um annari erminni á skyrtum og úlpum þeirra og annari buxnaskálminni, og með því ekki var mjög dimmt, en þeir í værum svefni, þá áræddi ég að fara burt; flýtti ég mér þá sem mest ég gat. En þegar ég var komin varla á miðja leið heyrði ég kallað á eftir mér að ég skyldi bíða; þekkti ég þá málróm þeirra, varð mjög hrædd og hljóp sem ég orkaði, en þó dró saman. En það vildi svo vel til að hér var opinn bærinn þegar ég kom að honum enda voru þeir þá komnir að túngarði. En með því þeir hafa orðið þess varir að fólk var á ferli mun þeim hafa þótt ráð að snúa aftur.“

Með þessu móti komst vinnukonan heim aftur, en bóndi sagði strax grönnum sínum þessa sögu og barst þetta á svipstundu um byggðina; tóku héraðsmenn þá það ráð að þeir söfnuðu fjölmenni, riðu að Litluheiði og töluðu við bónda og vinnukonu hans og spurði hana hvörnin ástatt væri í hellinum og hvört þjófarnir væri vopnaðir. Hún kvað vopn þeirra að vísu ekki vera góð, en hvörki mundi þá bresta karlmennsku né áræði og þar að auki mundi þeir geta varið svo hellisdyrnar að þá sakaði ekki, því þær væru litlar og lágar, en dimmt inn að sjá; en þeir væru oftast inni á daginn, en væri þeir úti, mundi þeir ekki hætta til fundar við aðkomandi nema þeir treysti sér, og fáir mundi líka taka þá á hlaupi því þeir væri fóthvatir. Talaðist þá svo til að stúlkan skyldi fara með þeim og skyldi hún ganga fyrir hellisdyrnar, en hinir þá vera viðbúnir ef þjófarnir leituðu út. – Sumir segja að vinnukonan gæfi þetta ráð; því allir bjuggust við að þeir mundu fyrir hvörn mun sækja eftir konunni ef þeir yrði ei við mannfjölda varir. Þeir riðu síðan austur í Sund og voru flestir vopnaðir, skipuðu sér þar sem þeim þótti vænst út frá dyrunum, en konuna létu þeir ganga til dyra og staðnæmast þar.

Þetta fór eins og menn ætluðu, þjófarnir komu strax út allir og segja sumir svo frá að þeir hafi verið lagðir til bana strax sem þeir komu út, en aðrir segja að þeir hafi allir verið handteknir og teknir af með öðru móti, og verður ekki sagt hvört sannara er. En hellirinn er síðan kallaður Þjófahellir.

Það er sagt að á Litluheiði hafi löngu seinna búið bóndi sem átti dóttur sem komin var yfir tvítugt, þegar bóndinn missti konu sína, en tók dóttur sína fyrir bústýru. Þegar dóttir hans var eitt sinn að sjóða kjöt í stórum potti til jólanna var hún að því fram á nótt í mesta dimmviðri. En svo stóð á að eldhúsið var beint innar frá bæjardyrum, en milli eldhúss og bæjardyra var öðrumegin búr, en hinum megin skáli sem var loftlaus og tómur, og var hann einungis hafður til að fleygja einu og öðru í við tækifæri. Regn var mikið um kvöldið. En þegar stúlkan var búin að sjóða bar hún kjötið fram í búr; henni varð litið í skálann og sá hún þar standa mann miklu meiri en aðrir menn að vexti; hann hafði alklæðnað og vettlinga á höndum og studdist fram á bita sem í skálanum var; henni virtist maður þessi skjálfa og nötra af kulda og vera alvotur, en þó virtist henni hann vera svo stór að hann studdist áfram á skálabitann sem þó var vel manngengt undir. Hún varð ákaflega hrædd, en sagði þó við manninn sem stóð þegjandi: „Þér er nær að fara inn í eldhús, þar er fullur pottur af heitu soði, og er þér nær að drekka það en að skjálfa þarna af kulda“ – og í sama bili stökk hún út og í annað hús þar sem fólkið var, en skellti aftur bænum, og var ekki vitjað um þetta fyrr en um morguninn. Þá var maðurinn horfinn og tómur soðpotturinn, en engu spillt. En aldrei varð vart við þennan mann fyrr né síðar.