Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Þorbjörn Kólka (1)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þorbjörn kólka

Þorbjörn kólka er talinn með landnámsmönnum. „Hann nam Kolkumýrar og bjó þar meðan hann lifði.“ Um Þorbjörn hafa verið nokkrar sagnir nyrðra og eru þessar helztar:

Kólkumýrar kalla menn nú suður á Kúluheiði og Kólkuhól, og er hvort tveggja dregið af viðurnefni Þorbjarnar. Þorbjörn átti sumsé að hafa haft þar aðalaðsetur sitt suður á heiðinni sumar og vetur og veitt á vetrum silung í Friðmundarvötnum á Kúluheiði. En haust og vor lá hann út við sjó í verstöð þeirri sem Hafnabúðir heita á Skaga. Draga búðirnar nafn af bænum Höfnum sem þar á allt land undir verbúðunum; en frá Höfnum er löng sjávargata ofan á Hafnabúðir. Þorbjörn kólka fékk sér búðarstæði hjá Hafnarbónda á nesi einu háu og er þaðan víðsýnt; síðan er það kallað Kólkunes; búð Þorbjarnar var og kölluð Kólka og svo heitir húsmannsbýli það sem enn er á Kólkunesi og liggur undir Hafnir. Tjörn ein er og á Hafnabúðum hjá nesinu og er hún kölluð Kólkutjörn; þangað sækja sjómenn allt neyzluvatn. Austan- og norðanvert við nesið skerst inn vík; fyrir botninum á henni er sléttur sandur og gott á land að leggja. Í þeirri vík er lendingin á Hafnabúðum. Rauf ein er milli klettanna á Kólkunesi vestanhallt við víkina og kölluð Kólkusker; þar er sagt að Þorbjörn hafi kastað af afla sínum.

Alltítt var að menn úr sveitum gerðu sig út til sjóróðra á Hafnabúðum haust og vor því þar var jafnan aflasælt þá sem nú; enda má sjá þar mörg búðastæði forn. Þangað fór og Þorbjörn kólka sem fyrr segir. Ekki átti hann við aðra vermenn svo getið sé; en vel féll á með Hafnabónda og honum. Þorbjörn var hinn mesti sjósóknari og reri einn áttæringi, aðrir segja steinnökkva, lengra í haf en flestir hafa farið þá eða síðan.

Einn góðan veðurdag var það að menn reru alskipa frá Hafnabúðum; þeir reru og báðir Þorbjörn og bóndinn í Höfnum með skipverjum sínum. Olbogi heitir dýpsta fiskimið sem róið er á úr veiðistöð þessari og er það fullar þrjár vikur undan landi. Þangað reru allir þenna dag því veður var fagurt og blítt og ólíkt til innanáttar. Þorbjörn reri langt úr öllum fiskimiðum eins og hann var vanur. Leið svo fram um hádegi að menn sátu að fiskidrætti og hélzt enn blíðviðrið, en eftir það fór að draga upp skýbólstra á innfjöllin, leið þá og ekki á löngu áður skinnaköst fóru að koma á sjóinn og þyrla upp moldrokum hér og hvar úr fjöllunum því af Olboga vatnar yfir allt láglendi. Hvessti þá svo óðum að um miðmundabil var komið særok á landsunnan og er það rétt um hnýfilinn í land af Olboga enda voru þá allir farnir að leita til lands nema Hafnamenn; þeir keipuðu einskipa eftir á Olboga.

Litlu síðar sér Hafnabóndi til Þorbjarnar og þykir honum vera mikill skriður á skipi hans og Þorbjörn róa heldur knálega. Þegar hann kemur á bug við Hafnabónda heldur hann upp árum og mælti: „Hvort hyggja Hafnamenn að keipa til kvölds?“ „Eigi er svo varið,“ mælti bóndi, „hitt er heldur að vér treystumst ekki að leggja móti andviðrinu.“ Lét þá Þorbjörn ferju sinni svífa nær Hafnamönnum og kastaði til þeirra færisenda sínum og bað þá að lafa á honum. En þeir brugðu endanum utanum allar þófturnar og tók svo Þorbjörn aftur til ára. Herti þá veðrið því meir sem á daginn leið. Réttir nú Þorbjörn fyrst annan fótinn og þótti Hafnamönnum þá ærinn skriður á skipinu. Héldu þeir svo áfram inn á mið það sem Vatnaslóð heitir og er það mæld vika sjávar norðan af Olboga. Þótti þá Þorbirni enn seint sækjast róðurinn svo hann réttir nú báða fætur sína og sagði: „Betur má ef duga skal því mörg verður ekkja á Hafnabúðum í kvöld.“ Reri hann þá bakföllum og svo sterklega að skip Hafnamanna var því nær allt í sjó og stóðu þeir allir í austri. Voru þeir þá svo þrekaðir bæði af sjóvolkinu og austrinum þegar að landi kom að þeir gátu ekki bjargað skipi sínu undan sjó; bar svo Þorbjörn einn bæði skipin upp í naust. Þá mælti Hafnabóndi: „Til hverra launa lítur þú, Þorbjörn, fyrir að þú hefur bjargað lífi voru?“ „Alls ekki hef ég að því hugað,“ segir Þorbjörn, „og mun ég ekki mútur taka á afli mínu; en sannast er að sárna tekur í lófum;“ og strauk þá um leið. Bóndi þakkar honum lífgjöfina og skildu þeir Þorbjörn að því sinni og gekk bóndi heim til Hafna. Annan dag eftir kom bóndi til Þorbjarnar, færði honum þrjátíu álnir vaðmáls og bað hann hafa í vettlinga. „Laklega var dregið“ sagði Þorbjörn, „því nú vantar í alla þumlana.“ Bætti bóndi honum þá enn tíu álnum og er ekki annars getið en að Þorbirni hafi þá vel líkað. Þorbjörn varð sannspár að því sem hann hafði sagt fyrir um skiprekann; því öll skip týndust í veðrinu sem róið höfðu af Hafnabúðum um morguninn nema þau tvö sem hann reri í land.

Þegar Þorbjörn kólka gerðist gamall og ekki fær til sjóróðra lengur fór hann með skip sitt (nökkvann) vestur fyrir Kólkunes og hvolfdi því þar hér um bil tuttugu faðma frá landi og óð síðan sjálfur til lands og er þar þó fimm faðma djúp í sundinu milli skers og lands. Það er síðan kallað Kólkusker; það er á að geta tuttugu faðma langt og tíu faðma breitt, en dregst nokkuð að sér til beggja enda, hæst og breiðast er það um miðjuna og ekki með öllu ólíkt því sem skip væri á hvolfi. Þegar Þorbjörn hafði hvolft skipi sínu er sagt hann hafi það fyrir að þegar bænahúsið í Höfnum væri fellt af fyrir fullt og allt mundi sá maður búa á Kólkunesi sem bæri gæfu til að hvolfa upp skipinu og mundi það verða honum eins happasælt eins og það hefði verið sér.

Þorbjörn hafði til beitu fóhorn og flyðrugarnir, mannaket í miðjum bug og mús á oddi. Hann sagði að þegar kippa skyldi kippa um fet og þverfet (það er lengd og breidd skipsins). Þegar hann var kominn í land frá skipinu segja menn að hann hafi kveðið vísu til að vísa mönnum á fiskimið það sem hann var vanur að róa á og Sporðagrunn heitir; vísan er þannig:

„Mið veit ég mörg;
Matklett á Björg,
beri neðri nöf
í naglfara röf,
hirði ég [aðrir: kynjar] ei, þó Kaldbak kali,
Kyrpingsfjall [aðrir: Kipringsfjall, Kyrkingsfjall] í Leynidali [aðrir: Leyningsdali].
Komi þar enginn kolmúlugur úr kafi,
þá [aðrir: kallast] mun ördeyða á öllu norðurhafi.“

Útskýring vísunnar eftir dannebrogsmann Björn Ólsen: „Matklettur er örnefni á heiðinni [Skagaheiði] upp undan Selnesi sem er innsti bær á Skaga austan til. Björg eru Ketubjörg; þar þau eru hæst er há þúfa á þeim og þar yfir á Matklettur að bera. Kyrpingsfjall kallast fjallbungan fyrir ofan bæinn Tjörn í Nesjum; heitir fjallið líka Tjarnarfjall; á það að bera í Leynidali er liggja upp undir klettum þeim sem eru ofan til norðan í Spákonufellsborg. Kaldbak er fjallið sem liggur fyrir ofan á bæinn Síðu og Vatnahverfi í Refasveit. Á það aðeins að vaka vestan til við taglið á Spákonufellsborg. Á þessu miði fann ég tólf faðma djúp, en hafði þó heyrt að þar ætti að finnast sex faðma djúp. Enginn veit ég til róið hafi á þetta mið síðan ég fór af skaga.“