Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Þorsteinn á Brú

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þorsteinn á brú

Það er gömul sögn að svartidauði hafi svoleiðis borizt á Ísland að um þær mundir bjó bóndi nokkur á Brú á Jökuldal er Þorsteinn hét. Konu átti hann mjög glysgjarna og hélt mikið upp á státs. Bónda þókti mjög vænt um konu sína og eitt sinn er sagt að hann hafi eftir beiðni konu sinnar beðið höndlara á Vopnafirði að útvega sér klæði í kjól handa konu sinni. Vorið eftir kom klæðið, en honum líkaði ekki og bað um annað betra. Árið eftir kom enn klæði handa Þorsteini, en honum líkaði enn ekki klæðið. Er þá mælt að kaupmanni hafi mislíkað og segir að það væri illt ef hann skyldi ekki fá klæðispjötlu að ári sem honum líkaði. Þriðja árið kemur Þorsteinn enn í kaupstað og segir þá kaupmaður að nú sé klæðið komið svo gott sem fáist, kemur með klæðisstranga og rullar sundur á borðinu, en innan úr klæðisstranganum rýkur blá gufa. En þegar Þorsteinn sér gufu þessa bregður hann skjótt við og á hest sinn og drífur á stað og upp allan Vopnafjörð og inn á Tunguheiði, en þegar hann lítur við á heiðarbrún sér hann þessa bláu móðu vera komna yfir hálfa sveitina. Hann ríður nú allt hvað hann mest má heim í Brú, og strax í skyndi tekur hann það nauðsynlegasta af búsgagni sínu og trjávið og heldur á stað með hyski sínu öllu og búsmala og norður á fjöll og léttir ekki ferð sinni fyrr en hann kemur á Dyngju í Arnardal; þar byggir hann kofa og býst um til vetursetu.

Nú líður og bíður til næsta vors; þá sendir hann mann til byggða til að vita hvörnin fyrirgjört sé, en sá kemur ekki aftur. Nú líður annað ár; þá sendir hann annan og fer á sömu leið. Nú líður þriðja ár og sendir hann enn þriðja vinnumann sinn og sá kemur nú aftur og segir drepsóttinni aflétt og því flytur Þorsteinn sig til byggða aftur og að Brú og býr þar til ellidaga og komst með þessu móti hjá pestinni ásamt hyski sínu, og frá honum eru komnir Brúarbændur allt fram á okkar daga, en til kofa hans sést enn á Dyngju í Arnardal.