Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Þorsteinn blóti

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þegar Davíð Scheving sýslumaður í Barðastrandarsýslu[1] þingaði eitt sinn í Svefneyjum kom þar fram maður nokkur sem Þorsteinn hét og klagaði mann þann fyrir sýslumanni er Bjarni Brandsson hét og meðhjálpari var í Flatey fyrir það að hann hefði í orðahnippingum mælt við sig orðum þessum: „Hver ætli taki mark á orðum þínum, þú sem bölvar öllum hlutum?“ Sýslumaður vildi vita ástæður orða þessara og spyr þingheiminn hvert Þorsteinn blóti mikið. Þingmenn segja heldur mikil brögð að því. „Hversu mikið blótar hann?“ spyr sýslumaður aftur, og sem bið verður á svari víkur hann spurningunni til Einars bónda á Svefneyjum, föður Eyjólfs dannebrogsmanns, sem þá þókti helztur bænda í Eyjahrepp og biður hann segja hvað mikið Þorsteinn þessi blóti. Einar mælti: „Fyrst ég er til þessa kvaddur þá votta ég það að Þorsteinn blótar mönnum og skepnum, sjónum og jörðunni, himninum og jafnvel Guði sjálfum.“ Sýslumaður ritar þá eitthvað í þingbókina og les það síðan upp fyrir þingheiminum og er það fyrst að Bjarni Brandsson skuli frí vera fyrir réttarákæru í málinu, en Þorsteinn skuli þaðan í frá heita Þorsteinn blóti og skuli allir hann því nafni nefna hvar sem hann sé staddur og hvar hann komi. Nafnið festist við manninn og hefur hann því lífs og liðinn nefndur verið.


  1. Davíð Scheving (1732-1815) var sýslumaður í Barðastrandarsýslu 1752-1781, en sagði henni þá lausri.