Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Af Einari prestlausa

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Á næstliðinni öld var prestur sá að Grímstungum er Einar hét,[1] hann var í mörgu hjákátlegur og sérlundaður svo að sögur hafa af farið. Síra Einar hélt sjálfan sig manna bezt, en kvaldi bæði konu og börn. Hann eldaði jafnan sjálfur hátíðamat og mátti þar enginn annar nærri koma. Kona hans hét Ingibjörg og kallaði hann hana Strympu, og er hann var að borða sagði hann: „Þú hefur lyktina, Strympa.“ – Þegar kirkjufólkið var að koma var sr. Einar að bera smér og ket út um hlað og sagði: „Þetta hefur presturinn í Grímstungum, en hvað hafið þið, aumingjarnir ykkar?“

Einhverju sinni var á páskadagsmorguninn margt fólk komið til kirkju, en sr. Einar var inn í eldhúsi að sjóða graut og gaf sig ekki að kirkjuferð. Þá gekk meðhjálparinn, Ólafur frá Haukagili, inn til hans og sagði að allt kirkjufólkið væri komið. „Jæja,“ sagði sr. Einar, „far þú Láfi, ég kem.“

Einhverju sinni var sr. Einar að sjóða hangikjöt til jólanna og fékk nú enginn í eldhúsið að komast. Nú langaði heimafólkið og konu hans í bita svo ein vinnukonan býr sig mjög hjákátlega og lætur utan yfir sig rekkjuvoð og verður fyrir honum í eldhúsgöngum. Sr. Einar var allra manna myrkfælnastur og hleypur þegar inn og vekur konu sína og segir: „Kondu Ingibjörg, það ganga undur á frammi.“ En kona hans lézt sofa og á meðan veiddi vinnukonan allt upp úr pottinum.

Þá var mjög hart í ári og komu margir förumenn utan dalinn yfir Kólku.[2] En er hann sá til þeirra gekk hann á móti því og kastaði steinum út í ána svo það þorði ekki yfir um. – Ekki tók hann við fólki nema þegar hönum sýndist. Einhverju sinni kom kerling er Setzelja hét og ætlaði að verða til altaris, en sr. Einar neitaði henni um það, og er sr. Einar gekk út úr kirkjunni var kerling að gráta. „Á,“ segir sr. Einar, „nú mátt þú snapa gams, gamla Setta.“ – Hann setti sjálfum sér þessa grafskrift:

Þegar dauðinn sýnir sig
og seinast ríður mér á slig
þá vil ég láta leggja mig
loks hjá minni bleyði
sem ég lengi þreyði.
Erum við þá, þá, þá,
erum við þá sem allir sjá
undir sama leiði.


Á leiðinu skal liggja tré
loftskorið með E og E
fágað allt svo fagurt sé
svo finnist engin lýti
þó krummar á það kríti.
Úti er þá, þá, þá,
úti er þá allt eymdarstjá
þá Einar er kominn í víti.
aliter:
og betri komin býti.

Sonur hans hét Ólafur; þann kallaði hann Drellir Strympuson.

Seinast var sr. Einar dæmdur á prestastefnu frá kjóli og kalli; um þá sem að því unnu sagði hann að þeir héngju saman á hölunum eins og Samsons refar.

Eftir það var hann á ýmsum stöðum á flækingi og í húsmennsku.

Einu sinni var hann á Stóru-Giljá; þar var þá og vinnumaður er Hrólfur hét. Það fréttist þangað að maður einhver væri vitstola orðinn, og segir sr. Einar: „Nú, mundi ég ekki þegar ég var prestur upp á Grímstungu hafa getað talað svo um fyrir þessum manni að hann hefði orðið sáluhólpinn?“ Þá segir Hrólfur: „Jú, víst kann það að vera, Einar minn, því Júdas gerði kraftaverk með hinum postulunum og fór þó til helvítis.“ Þá sagði sr. Einar: „Nú, drag þú þér sjálfur dæmi af Júdas, skömmin þín.“

Einu sinni var hann húsmaður á Akri; þar kallaði hann bóndann, er hét Arnbjörn, Skarnbjörn og konuna hans „tíkina hana Doppu“.

Hann uppnefndi alla heldri menn í Húnavatnssýslu og flesta þá er honum voru nálægir. Hann dó í koti hjá Hvammi í Vatnsdal og er hann lá banaleguna var sr. Páll á Undirfelli[3] sóktur til að þjónusta hann, en sr. Einar vildi ekki þegar til kom, og leiddist dvöl hans þar hjá sér og fór loksins að segja: „Fer nú ekki Páll pjakkur að fara?“


  1. Einar Eiríksson (1731-1810) var prestur í Grímstungum 1759-1785.
  2. Á að vera Álku = Álftaskálará), en hún fellur í Vatnsdalsá rétt fyrir utan Grímstungu.
  3. Páll Bjarnason (1763-1838) var prestur á Undirfelli frá 1794 til æviloka.