Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Anna á Stóruborg og Barna-Hjalti Pálsson

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Anna á Stóruborg og Barna-Hjalti Pálsson

Vigfús Erlendsson á Hlíðarenda, lögmaður og hirðstjóri 1515, var maður ákaflega ríkur og mikill höfðingi. Hann átti Guðrúnu Pálsdóttir lögmanns á Skarði Jónssonar. Þeirra dætur voru tvær: Guðríður kona Sæmundar í Ási og Anna var önnur. Hún fór ógift frá föður sínum og að Stóruborg undir Eyjafjöllum eignarjörðu sinni sem þá var einhver mesta jörð undir Fjöllum. Heyrt hefi ég að þar hafi verið sextíu hurðir á hjörum; er það oft talið um stærð bæja hvað margar voru hurðir á hjörum.

Anna gjörðist auðkona hin mesta og er það talið til marks um búrisnu hennar að hún hafði þrjú selstæðin: eitt í Seljunum, annað á Ljósadíla og þriðja á Langanesi. Sagt er að margir hafi beðið hennar, en hún verið mannvönd og engum tekið.

Hjá henni var smaladrengur sá er Hjalti hét Magnússon, lítilsigldur, en félegur. Einu sinni í kalsaregni um sumar eitt hafði Hjalti verið yfir fé og kom heim húðhrakinn og votur. Voru þá piltar hennar að nota rekjuna. Slógu þeir nú upp á glens við Hjalta og buðu honum ærið fé til að fara nú heim eins og hann var hrakinn og upp í hjá húsmóðrinni. Hjalti fór nú heim og upp í loftstigann, en er hann rak upp höfuðið leit Anna við honum. Varð hann þá einurðarlítill og dró sig í hlé. Þannig fór í þrjár reisur. Anna tók eftir þessu óvanalega einurðarleysi Hjalta og segir: „Hjalti! Hvað er þér?“ Hann segir henni hvað vinnumenn hennar hefði lofað honum. „Tíndu þá af þér leppana, drengur minn, og komdu upp í,“ segir hún. Afklæðir hann sig nú og fer upp í. Sofa þau nú fram eftir deginum eins og þeim líkar og er mælt henni hafi líkað drengurinn allvel er honum fór að hlýna. Svo sendir hún til piltanna og biður þá sjá hvar Hjalti var; heimtar nú af þeim það þeir lofuðu og máttu þeir til að inna það af hendi, svo var hún ráðrík.

Oft hafði Anna haft það um orð hvað fögur væri augu í Hjalta. Eftir þetta sænguðu þau saman og fóru að eiga börn. Þessu reiddist Vigfús faðir hennar svo ákaflega að hann sat um líf Hjalta og setti allar þverspyrnur við veru hans þar sem hann kunni. Hafðist Hjalti við í ýmsum stöðum. Mælt er að hellrar væru fyrir framan Stóruborg og væri þangað stuttur sprettur heiman úr Stóruborgarhólnum. Voru þessir hellrar kallaðir Skiphellrar því þar settu menn skip sín inn í. Þar hafðist Hjalti við um stund. Hest átti hann brúnan að lit, mesta afbragð; var það lífhestur hans. Þetta frétti Vigfús faðir hennar og fór þangað með margmenni. Kom hann að Hjalta þarna í hellirnum. Hafði hann ekki annað ráð en hlaupa á bak Brún og hleypti undan. Eltu menn hann, en Brúnn var svo góður hestur að enginn sá á eftir honum. Þá bjó Eyjólfur í Dal frændi hennar Einarsson og Hólmfríðar Erlendsdóttur, systur Vigfúss hirðstjóra. Eyjólfur skaut skjólshúsi yfir hann. Sumir segja hann kæmi honum til Markúsar Jónssonar á Núpi – sem átti Sesilíu Einarsdóttir á Múla, systir Eyjólfs, en Markús keypti trúnað bónda þess er bjó á Fit og kæmi hann honum í Fitjarhellir og skammtaði honum mat. Mátti hann vitja hans á vissum stað. Þarna var hann svo árum skipti, en er hann varð sýkn nefndi hann hellirinn í virðingar skyni Paradís. Hann er nú ýmist nefndur Paradísar- eða Fitjarhellir. Svona var mér sagt þegar ég var ungur. Aðrir segja hann hafi haft aðsetur sitt í helli þeim á Seljalandi er kallaður er Kverkarhellir og verið undir vern[d] Seljalandsbóndans. En þó hann væri svona ofsóktur var hann þó alltaf með annan fótinn í Stóruborg og var að eiga börn með Önnu. Sagt hefir mér verið að þau hafi átt svona saman átta börn.

Einu sinni kom Vigfús lögmaður faðir hennar svo að henni er Hjalti var hjá henni að hún sá ekki annað undanbragð en læsa hann í kistu sinni. Kom þá Vigfús að og leitaði Hjalta þar honum kom til hugar. Sat Anna á kistu sinni og gaf sig ekkert að því; Vigfús spurði hana hvað væri í kistu þessari. Hún kvað það barnaplögg sín. Svo varð faðir hennar reiður þessu öllu saman að hann gjörði hana arflausa.

Einu sinni kom Vigfús erinda sinna utan yfir fljót með sveinum sínum. Fljótið féll þá á millum skara og lítt færilegt. Voru allir sveinar hans komnir yfir á undan honum. Ís var báðumegin háll sem gler. Losnaði Vigfús við hestinn og barst að skörinni fyrir framan Hamragarða. Varð sveinum hans ráðafátt að ná honum. Í því kom maður að ríðandi í fluginu á brúnum hesti, stökk af baki og renndi sér fótskrið fram að vatninu, greip í lurg Vigfúsi og kippti honum upp á skörina; renndi sér svo skóbrunu til sama lands og á bak með sama og í burtu. „Hver hafði svo karskar hendur í hári mínu, sveinar?“ segir Vigfús. „Það var Hjalti mágur þinn,“ gellur einn þeirra við. „Þegja máttir þú,“ segir Vigfús, „því þögðu betri sveinar,“ og rak honum löðrung. Áfram hélt hann ferðinni og að Stóruborg. Sagt er að Anna hafi búið börn sín í skrúð og skart og léti þau öll ganga fyrir afa sinn og biðja hann að gjöra móður sína arfgenga. Karli gekkst hugur við bæn barnanna, leizt þau heldur féleg; þess og annars að Hjalti var búinn að gefa honum líf með öðru eins snarræði gjörði hann eins og þau báðu.

Eftir þetta giftust þau með góðu leyfi Vigfúsar. Seinna buggu þau að Teig í Fljótshlíð, langfeðgaeign hennar. Magnús í Teig var sonur þeirra; átti Þórunni Björnsdóttir offícíalis í Saurbæ Gíslasonar. Þeirra synir: 1) Árni á Heylæk faðir Þuríðar konu síra Gísla Bárðarsonar á Skúmsstöðum, föður Erlendar, föður Þrúðar konu síra Ólafs í Dal, föður Ingiríðar, móður Jóns Guðmundssonar eldra í Mörk er dó 1820. 2) Páll í Heynesi er átti Þórunni Einarsdóttir frá Hólum í Eyjafirði Grímssonar. Þeirra börn: a) Björn og b) Þórunn, átti Hallgrím lögréttumann í Kerlingardal, föður Jóns á Borg í Meðallandi, föður Hallgríms í Kerlingardal er átti Dómhildi Helgadóttir úr Landeyjum Ólafssonar. Þeirra börn: aa) Klémus í Kerlingardal og bb) Hólmfríður á Ketilsstöðum langamma mín og [cc)] Guðrún er átti Jón Runólfsson á Höfðabrekku afa síra Jóns Austmanns.