Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Api á Apavatni

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Í ofanverðri Grímsnessveit í Árnessýslu er bær sá er heitir á Apavatni og stendur hann hjá samnefndu vatni. Bæði vatnið og bærinn draga nafn sitt af fornmanni nokkrum sem Api hét. Bæirnir eru reyndar tveir og heita Efra- og Neðra-Apavatn. Norður undan Neðra-Apavatni standa hólar þrír niður við vatnið og heitir hinn hæsti Aphóll (Apahóll). Api er heygður í hóli þessum, en skip hans er í hinum syðsta og hundur hans í hinum nyrzta.

Þegar Api bjó á Apavatni var galdramaður einn við Þingvallavatn; hann seiddi allan fiskinn úr Apavatni upp í Þingvallavatn. Þetta líkaði ekki Apa og seiddi á móti, en silungurinn snéri allur móti Þingvallavatni og rann nú á sporðinn til baka. Af þessu segja menn að allur silungur í Apavatni komi upp á sporðinn. Þar er enn silungsveiði.