Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Bóndinn og drengurinn

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni bóndi í Fljótum; ekki er um það getið að hann hafi fátækur verið eða upp á aðra kominn með neitt nema hann varð tóbakslaus á hvörju vori. Nú var það siður bónda að þegar hann var orðinn tóbakslaus og ekki komu dönsku skipin svo fljótt sem hann vildi þá gekk hann upp á eitt hátt fjall sem var skammt frá bæ hans til að hyggja að skipum og ef hann sá þau og þó það væri lengst út í hafi þá tók hann bát sinn og vinnumenn sína tvo og fékk sér á næsta bæ mann þann fjórða og reri svo út á haf þangað til að hann fann skipið til að fá sér tóbak. Þetta gjörði hann hvört vor og tókst bónda það vel.

Nú er þess að geta að líka var í Fljótum einn unglingsdrengur nálægt bónda. Drengur þessi þótti ekki góður því hann var bæði latur, svikull og þjófur. Og einu sinni stal hann svo það átti að drepa hann, en drengur komst undan og flúði til bónda og bað hann að hjálpa sér svo hann yrði ekki drepinn. Bóndi kenndi í brjóst um hann þó hann vondur væri, en skammt frá landi lágu útlenzkar duggur, bæði Hollenzkir og Franskir og Flandrar. Nú fer bóndi eina nótt og flytur dreng fram í eina dugguna og skilur hann þar eftir og svo fór bóndi í land og lét ekkert á neinu bera. Nú þegar átti að taka dreng var hann horfinn og hugsuðu allir að hann hefði drepið sig og grét það enginn því öllum þótti vænt um ef hann væri frá.

Nú liðu tíu ár frá þessu og þar til að eitt vor að bóndi verður tóbakslaus eins og vant var. Nú fer hann einn morgun og gengur upp á fjallið. Veður var bjart og gott og logn yfir allan sjó. Nú fer bóndi að hyggja hvört hann sjái ekki skip og þegar hann er búinn að horfa lengi þá sér hann lengst út í hafi skip. Nú verður hann mjög glaður við það og hleypur nú ofan af fjallinu og heim að bæ sínum, sendir á næsta bæ eftir manni. Nú fer bóndi með hann og vinnumenn sína tvo og eru þeir þá fjórir saman. Setja þeir þá fram bátinn og róa út á haf. Halda þeir nú áfram allan daginn og nóttina, en um morguninn heyra þeir skot hvört eftir annað í hafinu. Þá vilja hásetar snúa aftur því þeir urðu hræddir við skotin, en bóndi vill það ekki og segir að það séu hvalfangarar að skjóta hval.

Nú halda þeir áfram fram á dag og nú um síðir sjá þeir skip ógnarlega stórt og annað miklu minna hvort hjá öðru. Svo róa þeir að stóra skipinu og þegar þeir fara að hyggja að því þá er það allt mosavaxið að utan fyrir ofan sjó, en svo stórt að þeim ógnar það. En það minna var ekki stærra en það sem þeir höfðu áður séð og var skotinn af því allur reiðinn. Þegar þeir eru komnir að þessu stóra skipi þá er rennt ofan tveimur köðlum með krók í enda og er þeim krækt undir stafnlokin að aftan og framan á bátnum og hann halaður upp á skip og skorðaður á þilfarinu með mönnunum í. Nú sjá þeir að á þilfarinu er stór mannhringur og innan í honum eru nokkrir menn, allir berir og aumingjalegir, og upp yfir þeim stendur maður á blárri úlpu með korða í hendi; svo eru þessir aumingja menn teknir og leiddir fram á borðstokkinn og höggvin af þeim höfuðin. Að því búnu fer bláúlpumaður ofan í káetu, en hinir fara að þvo blóðið af þilfarinu og vaska það vel upp. Þegar það er búið þá ganga þeir allir ofan í skip. Nú sitja þeir í bátnum og eru svo hræddir af öllu þessu sem þeir sáu að það er að þeim komið að fleygja sér í sjóinn.

Nú líður lítil stund þangað til að það kemur maður upp á þilfarið og gengur að bátnum og tekur í hönd bónda og leiðir hann með sér. Nú hugsar hann að eigi að drepa sig. Nú er bóndi leiddur ofan í káetu og fyrir úlpumann. Úlpumaður talar til bónda á íslenzku og segir: „Hvað ertu að fara, maður?“ Bóndi segir honum: „Ég ætlaði að fá mér tóbak.“ Úlpumaður segir: „Þú hefur æði mikið fyrir því; eða hvar áttu heima á Íslandi?“ Bóndi segir: „Ég á heima í Fljótum.“ „Hvað er þaðan að frétta?“ segir úlpumaður. „Ekki nema bágendi,“ segir bóndi. „Segðu mér,“ segir úlpumaður, „var nokkurn tíma piltur í Fljótum sem átti að drepa fyrir það hann hafði stolið einhvörju lítilræði?“ Bóndi segir: „Til var hann þó langt sé síðan.“ „Hvað varð um hann?“ segir úlpumaður. Bóndi segir: „Hann flúði til mín og flutti ég hann fram í duggu sem lá þar við land ásamt fleirum.“ „Það var vel gjört af þér,“ segir úlpumaður, „en heldurðu að þú þekktir hann aftur ef þú sæir hann?“ segir úlpumaður. „Það held ég ekki,“ segir bóndi. Þá segir úlpumaður: „Ég er nú sá hinn sami maður, og skal ég nú launa þér lífgjöfina. Ég þekkti þig þá þú komst að skipinu, og hefðir þú komið hér fyrri í dag þá hefðir þú verið skotinn í sjó því vegna þess að ég hefði þá ekki gáð að þér fyrir því að ég var þá að vinna skipið sem er reiðalaust og var það kaupskip.“ Eftir þetta tal úlpumanns lætur hann sækja hina þrjá af bátnum og leiða þá ofan í káetu. Hugsuðu þeir að það ætti að drepa þá, en þegar þeir sáu bónda lifandi þá minnkaði þeim hræðslan. Úlpumaður gefur nú bónda og mönnum hans nóg brauð og vín og segir við hann: „Nú á ég meira en þá ég var í Fljótum því nú á ég skip þetta og er nú ráðandi yfir því.“ Þar eftir lætur úlpumaður flytja allt úr danska skipinu og á sitt. Með það gaf hann bónda það. Svo lætur hann vinda upp segl á skipi sínu og festir danska skipið við sitt og siglir að landi með það og skaut svo fallstykki í það og reif það allt í sundur og segir við bónda: „Nú geturðu betur notað þér flökin og komið þeim að landi.“ Nú er settur ofan bátur þeirra Íslendinga og þegar það er búið þá lætur úlpumaður hlaða fullan barkann á bátnum með alslags vöru, en skutinn fullan með tóbak, og nú segir úlpumaður bónda að fara og svo skilja þeir og báðu hvör vel fyrir öðrum. Siglir svo úlpumaður á haf út og er hann svo úr sögunni, en bóndi heldur að landi með hlaðinn bátinn og var nú vel kátur og menn hans af ferð sinni. Komu þeir svo að landi og báru af bát sínum. Svo lét bóndi bera heim varning sinn allan og borgaði vel afbæjarmanni ferðina. Eftir það fór bóndi að ná skipflökunum og tókst honum það vel, en sumt rak að landi. Eftir það settist bóndi að með næði og varð vel ríkur og átti nóg tóbak alla ævi sína og varð gamall maður og er svo á enda saga þessi.