Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Böðvar í Böðvarsdal

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Böðvar í Böðvarsdal

Landnáma getur þess að Lýtingur Arnbjarnarson hafi numið Vopnafjarðarströnd alla ena eystri, Böðvarsdal og Fagradal, en ekki hver hafi búið í Böðvarsdal. Þar segja munnmæli að Böðvar hafi búið og sé þáttur af honum sem nú er týndur.

Þá hann fór að eldast sótti hann surtarbrand út í lönd og byggði þar af haug mikinn – sem enn er kallaður Böðvarshaugur – langt inn frá bænum, hann er hár og mikill, og var tjörn sunnan undir honum. Skip sitt flutti hann þangað og byggði hauginn yfir það. Síðan gekk hann lifandi í hauginn með dætrum sínum [tveimur], en tvo vetur næstu eftir sótti hann jólaveizlu heim í Böðvarsdal. Veizlustofan var byggð út frá bænum á túninu þar er, kringlótt, lofmikil, og var stofan tjölduð umhverfis og borið á borð vín og vistir. Enginn dirfðist veizluna að sitja með þeim, það hafði hann bannað. Enn þriðju jólin kom hann að sækja veizluna; héldu menn hann þá dáinn og genginn aftur því maður einn leyndist bak við tjöldin og sýndist Böðvar ógurlegur. Eftir þetta kom hann ekki heim. Þetta hef ég heyrt, en fleira ekki, úr Böðvars þætti.

Munnmælasögn er að reynt var í fyrndinni að brjóta Böðvarshaug; var brotið gat á annan endann – því hann [er] aflangur, þá var þar fyrir skipsstafn og lá silfurbúin öxi í skutnum. Maður einn ætlaði að þrífa öxina, þá var höggvin af honum höndin, en hann þreif hana með hinni hendi, og svo var hætt við haugbrotið. Merki til sögu þessarar var dæld mikil eins og jarðfall framan í haugnum.

Á seinni tímum var reynt að brjóta haug Böðvars. Guðmundur sýslumaður Pétursson fór þangað með nokkra menn og gróf gryfju litla ofan í koll hans og hætti svo við.

Einhuga maður nokkur er Pétur hét, kallaður hökulangi, var vinnumaður í Böðvarsdal. Hann ásetti sér fastlega eitthvört sinn að brjóta hauginn, en nóttina áður en þetta átti að gilda kom Böðvar til hans í svefni með reidda öxi ógurlegur mjög og kvaðst mundi færa öxina í höfuð honum hætti hann ekki fyrirætlun sinni.