Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Böddi hýðir stúlku sína

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Böddi hýðir stúlku sína

Á dögum Blöndahls sýslumanns í Húnaþingi[1] var þar böðull nokkur sem hét Jón og var Þórðarson. Hann var ungur maður og ókvæntur. Var honum í hug að staðfesta ráð sitt og gifta sig. Biðlaði hann því til bóndadóttur á bæ nokkrum og lofast hún honum. Liðu nú tímar fram að ekki bar til tíðinda þar til kom upp þjófnaðarmál á bæ þeim hvar kærasta Jóns var. Lauk því svo að foreldrar stúlkunnar og hún sjálf urðu sek um þjófnað og öll dæmd til hýðingar. Sýslumaður hafði heyrt um trúlofun Jóns, gjörir honum því orð að finna sig. Jón kemur, en erindi sýslumanns við hann er það að hann segir honum hvar komið sé og spyr hvert hann vilji nú hýða fyrir sig stúlkuna eða vilji hann að annar sé til fenginn. Jón segir embættisskylda sín bjóði sér að gjöra það og megi hann hverki né vilji skora sig undan því. Þetta samþykkir sýslumaður, og nú þegar að stefnudegi kom kemur böddi og hýðir frýjulaust stúlku sína, en þegar því var lokið segir hún að öllu skilið við hann með trúlofunina svo hann sat sneyptur eftir.

  1. Björn Blöndal (1787-1846) var sýslumaður í Húnavatnssýslu frá 1820 til dauðadags.