Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Bardagi á Torfufellsdal

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Bardagi á Torfufellsdal

Fram af Eyjafirði liggur afdalur einn í útsuður. Eftir hönum endilöngum rennur Torfufellsá og fellur hún í djúpu klettagili í Eyjafjarðará milli Torfufells og Leynings. Austanverðu árinnar liggur dalurinn allur undir Torfufell og er þeim megin nefndur Torfufellsdalur, en að vestanverðu við dalsmynnið stendur bærinn Syðri-Villingadalur og á hann land þar skammt fram fyrir. En þar fyrir framan heitir kjálkinn að vestan Leyningsdalur allt að Fremri-Lambá og heyrir til Leyningi, en fyrir framan ána heita Galtartungur. Upp með Fremri-Lambá að sunnan liggur vegur yfir svokallað Nýjabæjarfjall að Nýjabæ í Skagafjarðardölum.

Fyrir mjög löngu, meðan landið var í heiðni, vildu Skagfirðingar eigna sér Galtartungur og hugðu sér að hafa þær undan Eyfirðingum. Í því skyni komu þeir eitthvert sinn vestan Nýjabæjarfjall með liðsafnað mikinn; eru tveir hersforingjar þeirra nafngreindir, Ísleifur og Sverrir. Þegar þeir koma ofan í dalinn skiptu þeir liði sínu; fór Sverrir með sitt lið heim Leyningsdal, en Ísleifur að austan út Torfufellsdal og skal fyrr sagt af hans afdrifum.

Nokkru framar en gegnt Syðri-Villingadal er grund mikil og eftir henni rennur lækur. Þar mættu Eyfirðingar Ísleifi og tókst þar með þeim allharður bardagi beggja vegna lækjarins. Er sagt Eyfirðingum hafi fylgt fjöldi kvenfólks er hafi kastað klæðum á vopn Skagfirðinga og hafi það ollað mestu að þeir féllu þar hrönnum fyrir þeim. Sjást þar enn í dag á grundinni allt einir smáhólar sem virðast líkastir val og eru þeir nefndir Draughólar. Þegar nú allt lið Ísleifs var fallið og hann stóð einn uppi brast hann á flótta og hvatar ferð sinni fram allan Torfufellsdal, en Eyfirðingar veittu hönum eftirför. Heitir Lambá þar á dalnum; fram fyrir hana eltu þeir Ísleif og þar upp í skál ofarlega í fjallinu, þar náðu þeir hönum, drápu hann þar og heygðu í skálinni. Heitir sú skál síðan Ísleifsskál.

Nú er að segja af Sverrir að hann heldur með sitt lið heim Leyningsdal. Veit hann ekki fyrri til en Eyfirðingar koma þar á eftir hönum framan dalinn og höfðu sitt kjarkmikla kvenfólk í för með sér. Hopar Sverrir á undan þeim allan dalinn, en lið hans stráfellur; sjást þar margir smáhólar meðfram fjallshlíðinni sem á að vera valur. Þegar Sverrir er kominn yzt á Leyningsdal er lið hans allt fallið. Tekur hann þá á rás og upp í dal einn lítinn sem heyrir til Syðri-Villingadal; þar náðu Eyfirðingar hönum og drápu hann. Hefur þar allt að þessu sézt haugur hans og heitir það Sverrishaugur, en dalurinn er nefndur Sverrisdalur (Svardalur). Eftir þennan sigur héldu Eyfirðingar heim til sín, og er ekki annars getið heldur en þeir hafi hagnýtt sér síðan Galtartungur í góðum friði og liggja þær nú undir Torfufell.