Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Barnafoss (1)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Barnafoss

Það er sagt að eftir það að Músa-Bölverkur í Hraunsási veitti Hvítá í gegnum ásinn hafi verið steinbogi á ánni sjálfgjörður. Átti þá Hraunsás kirkjusókn að Gilsbakka.

Einu sinni bjó kona nokkur í Hraunsási. Hún átti tvo sonu stálpaða; auðug var hún að fé. Einhverju sinni fór hún og allt heimafólk hennar til kirkju upp að Gilsbakka. Vóru þá sveinarnir tveir einir heima og tók hún þeim vara fyrir að fara ekki frá bænum meðan hún væri í burtu. En þegar fólkið var farið í burt ætluðu drengirnir að elta kirkjufólkið og fóru norður ásinn. Þeir komu að boganum, en það er sagt að boginn var mjór og hátt ofan að vatninu, en foss undir. Sveinarnir tóku þá höndum saman og leiddust. Fóru þeir þá út á bogann og ætluðu yfir ána. En þegar þeir komu út á miðjan bogann varð þeim litið niður fyrir sig. Þá sundlaði þá er þeir sáu í iðuna undir boganum og féllu út af niður í ána. Þegar fólkið kom heim aftur fundust sveinarnir hvergi. Móðir þeirra lét leita að þeim, en allt kom fyrir eitt, sveinarnir fundust ekki. Hún frétti þá hvernig á stóð; því einhver átti að hafa séð til sveinanna, en orðið of seinn til hjálpar. Reiddist þá konan og lét höggva bogann af ánni með þeim ummælum að þar skyldi enginn framar lífs yfir komast. Fossinn heitir síðan Barnafoss.

Konan hét því nú að ef börnin fyndust skyldi hún gefa þeirri kirkju Norðurreyki sem ætti þar sveit að ánni sem þau ræki upp og þeirri kirkju sem þau yrðu grafin við skyldi hún gefa Hraunsás og Húsafell í legkaup. Allar þessar jarðir átti hún. Nokkru seinna fundust bæði börnin rekin hjá Norðurreykjum, en það er í Reykjaholtssókn. Sveinarnir vóru grafnir í Reykholti svo Reykholtskirkja fékk jarðirnar allar. Og hvað sem satt er eða ekki í sögu þessari þá eru nú allar þessar jarðir eign Reykholtskirkju.