Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Berufjörður

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Berufjörður

Berufjörður dregur nafn sitt af Beru sem bjó í Berufirði. Bera var auðug af gangandi fé og sjást enn kvíatóftir hennar í túninu á Berufirði; tóftin er fjórðungur úr dagsláttu og er kölluð Berukví. Sóti hét bóndi Beru. Einu sinni fóru þau að heimboði upp í Breiðdal, en á heimleiðinni villtust þau á fjallinu og margt manna með þeim. Veður var svo illt að allir förunautar þeirra dóu á hjalla þeim sem síðan er kallaður Mannabeinahjalli. Þau héldu nú áfram tvö ein og urðu loks aðskila á fjallinu. Sóti komst rétt á móts við bæinn í Berufirði og þrammaði þar fram af fjallinu sem heitir Sótabotnsbrún. Af því beið hann bana og er þar dys hans í Sótabotni. Bera lét hest sinn og hund ráða förinni eftir það hún var ein orðin og vissi hún eigi fyrr en hesturinn fór inn í hesthúsið í Berufirði. Var þá svo mikil ferð á hestinum að hún skall aftur af honum og rotaðist. Hún er heygð í Beruhóli, en sá hóll stendur fram undan bænum í Berufirði.