Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Björg í Vallatúni

Úr Wikiheimild

Þess er getið í Árbókum Jóns Espólíns að Björg dóttir Ara í Sökku og Eyjólfur maður hennar höfðu um tíma umboð Þingeyrarklausturs og að þau misstu það umboð fyrir ófrómleika Bjargar og flæmdust þau þá burtu þaðan.[1] Síðan er ekki [getið] um hvað af þeim hafi orðið, í Árbókum Espólíns. En umboð þetta misstu þau hér um 1732, en þegar þau flæmdust þar að norðan komust þau að Holti undir Eyjafjöllum til Þorsteins prests Oddssonar, því Eyjólfur maður Bjargar var nokkuð skyldur Kristínu Grímsdóttir konu séra Þorsteins og skutu þau hjón þess vegna skjólshúsi yfir þau og fengu þeim búnað í Vallatúni sem er Holtskirkjujörð. So var Björg viðhafnarmikil þegar hún kom að norðan að í söðli hennar héngu tólf smábjöllur sem allar hringdu þegar hesturinn skeiðaði, og varð af því hljómur mikill. Skömmu eftir að þau fóru að búa á Vallatúni fór að bera á kindahvarfi þar í kring og fóru menn að hafa grun af að það mundi vera af völdum Bjargar og Ara sonar hennar, og fór so fram um hríð og styrktist grunur þessi ekki alllítið við það að menn sem riðu út á Holtsmýri til heyverka kringum höfuðdaginn fundu þar heilt blómursiður nálægt Kýrkeldu þar sem eitt barn Bjargar hafði nýskeð riðið þar um með mat á engjar.

Þá bjó í Gerðakoti Kjartan Einarsson og var Einar faðir hans kallaður sjór og bjó þar áður, og var Kjartan hraustmenni mikið og hinn hugrakkasti. Maður hét og Sveinn er bjó í Vallatúni og tóku þeir Kjartan sig saman um að verða vísir um þetta athæfi Bjargar, því þó menn hefðu orðið miklar líkur fyrir því að Björg og börn hennar mundu liggja í þjófnaði þá þorðu öngvir það í hámæli að bera hér til, einkum vegna þess að sá orðrómur lá á að Björg og fleiri frændur hennar væru göldróttir. Nikulás sýslumaður Magnússon hafði fram að þessum tíma er hér var komið verið í Holti hjá tengdaforeldrum sínum, en flutti sig um þetta leyti búferlum að Barka[r]stöðum í Fljótshlíð. Eftir að blómursiðrið fannst komu þeir sér saman um það Sveinn og Kjartan að sitja um hvað Björg og börn hennar hefðust að, og komst Sveinn að því eina nótt að mikið rauk hjá Björg; læddist hann þá upp á eldhússtrompinn og heyrði hann þá til Bjargar og einhvurra barna hennar í eldhúsinu og fann ketlykt með gufunni upp um strompinn. Sendi hann þá eftir Kjartani og kom hann þegar. Brutu þeir Kjartan þegar upp bæinn og hittu Björg og börn hennar í eldhúsi, sem vóru að sjóða slátur. Leituðu þeir þegar um bæinn og fundu þar þýfi mikið og tólf kindarhöfuð öll grafin í taðstálið. Ekki var Eyjólfur maður hennar við þetta verk og hafði hann löngu áður tekið sér legurúm í fjósi og ein dóttir hans og var hann að so miklu leyti sem hann gat laus við þjófnað þennan. Nikulás sýslumaður var staddur í Holti um þessar mundir, og er óljóst hvort hann flutti þetta sama vor að Barka[r]stöðum eða ekki fyr en vorið eftir. Sunnudaginn áður en þetta skeði í vikunni voru þau sýslumaður og Björg eftir embætti að leiðast um í kirkjugarðinum og spjalla saman; var hún þá státsleg mjög og báru þau bæði yfir sér regnhlíf. En eftir að þeir Kjartan höfðu fundið þetta fór hann þegar heim að Holti og sagði sýslumanni þetta. Brá hönum þá mjög við og blés þungan og mælti síðan: „Fyrir löngu vissi ég það, Kjartan, að hún Björg var þjófur, en þar fórstu með okkur alla, en það er vitanlegt að það gildir eina hvað þú hefst að, því ekkert vinnur á þér.“

Voru þau Björg þá tekin undir próf og vildi Björg ekki annað, þegar hún var flutt frá Vallatúni heim að Holti til prófsins, en að ríða í söðli sínum hinum mikla. Voru þá allar bjöllurnar teknar frá söðlinum, en kindarhöfuðin tólf aftur bundin við hann. Var prófið haldið [í] kirkjunni og var Björg þar hin örðugasta viðfangs og vafði málið sem hún gat og þrætti fyrir og hafði heitingar miklar við þá er þar að stóðu og sagði að þeim skyldi illu launað verða. Var margt fólk úr hverfinu kallað heim að Holti til vitnisburðar, og var þann dag hvassviðri mikið so þess var getið að konur áttu örðugt að halda á sér földum, og urðu menn hræddir við það og var það eignað göldrum Bjargar.

Ekki er þess getið hvurt dómur féll í málinu, en flæmd voru þau Björg með fólki sínu burt þaðan úr héraði og lék orð á að sýslumaður og dómsmenn hefðu ekki vogað að dæma Björg til fullrar hegningar af ótta fyrir fjölkynngi hennar eða frænda hennar. Verður því næst komizt að þetta muni skeð hafa ár 1738 eða '39. Var þá í mæli að þau Björg muni þaðan flæmzt hafa norður í Þingeyjarsýslu til einhvurra frænda sinna, og vitum vér ekki meira um þau að segja annað en það að sonur Ara var Jón Arason sá er kom síðar að norðan um sama leyti og Mála-Davíð og Jón Magnússon á Klaustri. Komu þessir allir að norðan og staðfestust í Skaftafellssýslu.

Brátt eftir að Björg var burtu farin þóttust menn í Holtshverfi verða varir við að einhvur vofa væri þar komin í héraðið og fór þá brátt að bera á undarlegum veikindum í konu Kjartans í Gerðakoti og börnum Sveins í Vallatúni. Og þóttust menn heyra á nóttu að eitthvað ásókti konu Kjartans ef hann var ekki nærri, en ekki bar á því þegar hann var nærri henni hvort sem hann var í rúminu hjá henni eður annarstaðar. En þó jukust veikindi þessi svo að hún varð afsinna og andaðist skömmu síðar. Sama varð um tvö börn Sveins í Vallatúni að þau urðu mestu fáráðlingar og urðu ekki langlíf og kom það jafnt yfir þau hvort Sveinn var nærri eða ekki, en ekki sakaði hann þó sjálfan. Sumir menn þóktust sjá vofu þessa og var það ýmist að sjá sem mórauður hrútur með miklum hornum, en stundum sýndist það í mannsmynd sem mórauður strákur. Hugðu menn að það hefði helzt aðsetur sitt í Brattskjólsbóli framan í Ásólfsskálaheiði, og þóktust menn stundum á nætur verða varir við ferð þess úr Brattskjóli fram Holtsodda fram að Vallatúni eða Gerðakoti og heyrðist þá oftast morguninn eftir að kona Kjartans og einkum börn Sveins í Vallakoti hefðu verið ásótt eða kvalin þá sömu nótt. Og stóð mönnum, einkum í Hol[t]shverfi, hér af ótti mikill.

Eitt kvöld síðla kom Jón Sveinsson bóndi á Utastaskála sunnan frá Holti og reið upp Holtsodda. Mætti hann þá vofu þessari og vildi hún ráðast á hann, en hann var hraustmenni mikið og stökk þegar af baki og bjóst til mótvarnar, en þá hörfaði Móri frá hönum, og sýndist hönum hann þá hlaupa í hest sinn og lét þá hesturinn mjög illa og sýndist hönum hann þá bæði bíta og berja, en þá féll hesturinn og þá sýndist Jóni vofan þá yfirgefa hann. Tók hann þá aftur í taum hestsins og gat hann með naumindum komið hönum á fætur, en lítið gat hann komið hönum úr stað þegar hann ætlaði að teyma hann. Spretti hann þá af hönum þófareiðinu og skildi hann þar eftir, en gekk sjálfur heim til sín um nóttina. Var hestsins vitjað morguninn eftir og var hann þar næstum í sama stað og tók lítið eða ekkert í jörð. Varð hönum þá með illum leik komið heim að Skála og þar drepinn. Ekki sást að hann væri beinbrotinn, en blóðhlaupinn var hann að innan. Þessi Jón Sveinsson var sonur Sveins þess er kallaður var digri eða sterki Oddssonar frá Moldnúpi Bárðarsonar. Jón var faðir Sveins danebrogsmanns á Skála og sagði Sveinn sögu þessa þeim er nú lætur rita hana. Sveinn var fæddur anno 1750 og sagði hann eftir föður sínum að faðir [hans] hafi oftar séð Móra þennan, en ekki hefði hann hönum grand gert oftar en í þetta eina sinn. Og sjálfur hélt Sveinn að hann hafi orðið hans var eina nótt í Holtsoddum þegar hann var um tvítugsaldur, en ekkert varð hönum þar meint við. Eftir að Jón Sveinsson missti hestinn fyrir Móra sem jafnvel var árið 1740 urðu menn hræddari við Móra en áður. Um þetta leyti var Nikulás sýslumaður kominn að Bark[ar]stöðum og var hann þá eitt sinn á ferðareisu undir Fjöllunum og kom heldur síðla dags austan undan Fjöllum að Holti og var það seint á slætti. Þóttist hann nauðsynlega þurfa að komast heim til sín að Barka[r]stöðum það sama kvöld, en treystist ekki að fara af ótta fyrir Móra og hafði hann þó fylgdarmenn. Tók hann þá það ráð að hann reið frá Holti til Kjartans í Gerðakoti, en hann var þá á engjum að slætti, og biður hann að fylgja sér út yfir Markarfljót því með hönum sé hann óhræddur. Kjartan gerir það og tekur hest sinn er þar var nærri og fer á bak eins og hann stóð og tekur klaufhamar í hendina sem þar lá í teignum hjá hönum og fylgir hann svo sýslumanni og þeim félögum hans út yfir Markarfljót og næstum heim að Barka[r]stöðum og var þá farið að dimma af nótt. Kjartan snýr þá við og vill komast heim til sín um nóttina og þá er hann er búinn að fara yfir nokkuð af Markarfljóti vill hesturinn ekki áfram fara á eyri einni í fljótinu og fer hann að frýsa og láta illa. Sýnist Kjartani þá á eyrinni skammt fyrir framan sig líkt og liggi grænt klæði útflatt og sýnist hönum tindra úr því eldneistar, og þó Kjartan ætli að komast annan veg af eyrinni sýnist hönum þetta jafnan vera komið fram fyrir hestinn so hann kemur hönum hvurgi. Kjartan verður þá reiður mjög, stökkur af baki og beint að sjón þessari með reiddan klaufhamarinn og ætlar að setja hann í það af afli. En það hrekkur þá undan og hverfur hönum að sýn. Hleypur hann þá strax aftur á bak hestinum og slær hann þegar með hamrinum, fyrst mikið högg á lendina og síðan á makkann aftan við eyrun, og tekur þá hesturinn hlaup mikið og setur sig þegar í fljótið þegar hann kemur að því og yfrum það, og heldur Kjartan so heim að Gerðakoti og hitti hann ekki Móra oftar í þeirri ferð.

Sagt var og að Nikulás sýslumaður hefði farið verða nokkuð undarlega geðveikur á köflum eftir burtrekstur Bjargar, og eignuðu menn það fjölkynngi hennar eða frænda hennar þegar hann stakk sér í gjána á alþingi skömmu síðar eða 1741. Líka eignuðu menn það fjölkynngi hennar að Þorsteinn prestur Oddsson, tengdafaðir sýslumanns, varð á stuttum tíma mállaus ár 1742. Varð hann þá að yfirgefa stað og prestsskap og fluttist hann þá frá Holti að Eyvindarmúla í Fljótshlíð til Hildar dóttur sinnar er þar bjó, og þar andaðist hann. Hildur átti Eyjólf á Múla er kenndur var við hrísluna í gilinu. Aldrei varð Kjartani í Gerðakoti sjálfum neitt meint við Móra, en nokkuð undarlega þókti mönnum Sveinn í Vallatúni veikjast áður en hann deyði og kenndu menn það þá völdum Móra og þókti mönnum það rætast er sýslumaður sagði í upphafi að viðureign þeirra við Björg mundi fara með þá alla nema Kjartan einn – og ekki er þess getið að vart hafi orðið við Móra eftir að þessir allir voru dauðir er helzt stóðu að [að] ljósta upp illverkum Bjargar og flæma þau úr héraði, og mun það hafa verið eitt hið síðasta að vart varð við Móra þegar Sveinn danebrogsmaður varð var við hann í Holtsoddum og var það litlu fyrir 1770, og um það tímabil eða litlu síðar andaðist Kjartan í Gerðakoti og héldu menn því að Móri hefði ætíð viljað sitja um hann, en ekkert áunnið og hvorfið því algjörlega burtu annaðhvört skömmu fyrir eða þá eftir dauða hans. Ekki vita menn hvar þau Björg hafi uppi haldið sér síðan eða hvar hún hafi dáið – og endar svo þessi saga.

  1. Sjá Björg í Vallatúni og sending hennar.