Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Björn í Lóni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Björn í Lóni

Það er ein gömul sögn að maður nokkur var sá í Grunnavík vestur er Björn hét. Var hann rammur að afli og myrkur í skapi. Fékk hann sér konu við sitt skap, byggði síðan bæ við Lónafjörð og kallaði að Lóni. Ekki hafði hann hjóna og lítil viðskipti við aðra menn. Bjó hann að sínu langan aldur. Ekki varð honum barna auðið, en auðugur varð hann að fé. Gjörði hann sér fiskimið á firðinum og fiskaði vel; en ekki tjáði öðrum þar að renna færi, því enginn dró þar fisk utan Björn. Þegar hann var orðinn gamall og sjónlítill rær hann með konu sinni til Staðar í Grunnavík og hittir prest. Tala þeir lengi og vissu fáir hvað undir bjó. Þau hjón gistu að Stað um nóttina. Morguninn eftir fylgir prestur Birni til sjóar og eru þar húskallar prests. Segir þá Björn við þá: „Látið þið nú heita eftir mér, piltar, og skal sá það gjörir ekki láta skíra barnið, heldur kalla það mínu nafni og skal sá sveinn finna fé það er ég hefi falið og mið það er ég hef fiskað á, en enginn ella. Ekki skal heldur tjá að búa að Lóni eftir mig.“ Ekki vildu þeir sem þar vóru skeyta þessu. Rær bóndi heim og dó hann litlu síðar. Jarðaði kelling hann í túninu og hafði hann fengið það hjá presti að ekki væri hann fluttur til Staðar. Enginn hefur enn látið heita eftir Lón-Birni og ekki hafa fundizt peningar hans eða fiskimið.