Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Björn frá Melstað og Guðmundur biskup

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Björn frá Melstað og Guðmundur biskup

Á dögum Kristjáns konungs fjórða bjó prófastur að Melstað í Miðfirði; hann átti son er Björn hét, efnilegan og laglegan. Í koti hjá Melstað bjó fátækur bóndi er átti þann son er Guðmundur hét; hann var afbragðs vel gáfaður. Þeir Björn og Guðmundur voru jafnaldrar og vinir miklir.

Prófastur sendi Björn son sinn í Hólaskóla, en honum leiddist þar mjög er hann var án Guðmundar, svo hann sendi eftir Guðmundi og lagði af mörkum við hann það sem hann gat og eggjaði hann á að nema skólalærdóm. Með styrk góðra manna tókst Guðmundi að komast fram og var hann útskrifaður ári fyrri en Björn. Prófastur lét Björn son sinn sigla til háskólans. Guðmundur fylgdist með hönum og hafði þó lítil fararefni. Þeir voru í nokkur ár við háskólann og gekk Guðmundi ágæta vel svo hann var talinn með lærðustu mönnum. En þá þrutu þeim svo alveg efni að þeir sáu sér ekki önnur ráð en ganga út og biðja sér beiningar. Einhverju sinni stóðu þeir hjá götuhorni einu og beiddu þá beiningar er framhjá gengu. Þá gekk Kristján konungur fjórði þar framhjá. Hann hafði áður verið á ferð á Íslandi og gist hjá prófastinum á Melstað. Hann veik sér að Birni og spurði hann hvaðan hann væri; hann sagði hið sanna þar frá og sagði að sér hefðu eyðzt peningar svo hann nú væri kominn á vonarvöl. Konungur segir að kunningi sinn hafi einhvern tíma gist hjá föður hans og skuli hann njóta þess og býður honum til hallar og gjörir hann að skenkjara sínum.

Guðmundur var nú ennþá á verganginum, og segir frá því að hann einhverju sinni gekk framhjá húsi einu. Sá hann þar hjá glugga einum mey fagra og biður hana beiningar. Hún réttir að honum þrjár spesíur og varð Guðmundur glaður við. Hann horfir á stúlkuna stundarkorn og fær til hennar ástarhug og biður hennar þegar, en hún svaraði engu og gekk á burt. Guðmundur varð mjög hryggur og fer nú einförum. Hann frétti að faðir stúlkunnar væri stiftprófastur, drambsamur maður og stærilátur. Þó ekki væri álitlegt herðir hann þó upp hugann og gengur fyrir stiftprófastinn og hefur upp bónorðið, en hann svaraði svo að hann rak Guðmund á dyr og fleygði honum til jarðar svo hann varð allur blár og blóðugur. Þetta fréttir Björn vinur hans og kemur honum fyrir í húsi nokkru og fær læknir til að lækna hann. En er Guðmundur er heill orðinn sára sinna biður Björn skenkjari konung að lána sér 200 dali þangað til hann fái þá frá föður sínum á Íslandi, og gerir konungur það. Með þessa peninga fer Björn og til stiftprófastsins og biður hann að lána sér herbergi, þar hann ætli að halda vinum sínum veizlu. Stiftprófasturinn lætur það eftir, og býður nú Björn tuttugu riddurum til veizlu í herbergi þessu og Guðmundi vini sínum. Svo biður hann og stiftprófast og dóttur hans að sýna lítillæti og vera í samkvæminu. Hagar Björn því svo til að Guðmundur situr næstur prófastsdóttur. Yfir borðum vekur Björn máls á því hvað prestum sé aftur farið, áður hafi þeir predikað blaðalausir, en nú geti ekki nokkur prestur svo mikið sem skírt barn eða gefið saman hjón án þess að lesa allt af bókinni. Stiftprófasturinn verður æfur við þessi orð og kveður hann fara með ósannindi, þar margir muni finnast þeir er geti hvorutveggja þetta blaðalausir og kveðst vilja veðja við Björn 100 dölum. Björn kvaðst veðja jafnmiklu á móti og leggur 100 dali fram á borðið, að stiftprófastur ekki geti gefið saman hjón blaðalaust, „og er nú hér,“ segir hann, „kostur að reyna sig; hér er karlmaður og kvenmaður og nægir vottar.“ Stiftprófastur segir að svo skuli víst vera og byrjar hjónavígsluna. Heldur hann snotra ræðu og þar næst gefur hann þau saman eftir formulari kirkjunnar. Að þjónustugjörðinni lokinni spyr hann þá er viðstaddir voru hvort sér hefði í nokkru á orðið og kváðu allir að svo væri rétt vígt og afhendir Björn honum veðféð.

Um kvöldið er gestirnir fóru í burtu býður Björn Guðmundi að taka konu sína með sér, en stiftprófasti kemur slíkt óvart og kveður þetta hafa verið tilraun til gamans, en enga alvöru. Björn sagði hann rétt hafa saman vígt og því væru þau rétt hjón og rak Guðmund út með konu sinni, en stiftprófastur sat eftir reiður og hryggur og sá sér ekki fært að sækja hana í höndur þeim. Þau Guðmundur og dóttir stiftprófastsins sænguðu saman um nóttina. En um morguninn leiðir Björn Guðmund fyrir konung og biður hann að veita Guðmundi ásjá; þar með segir hann honum upp alla söguna og biður konung að vernda lögin. Konungur segir: „Ráðugur ertu, Bjössi, og skal þetta hjónaband víst haldast og Guðmundi vini þínum skal ég veita brauð út á Íslandi það fyrsta ég get.“

Um sömu mundir fréttist það til Danmerkur að biskupsstóllinn í Skálholti væri auður og stóð þá Björn skenkjari fyrir konungsborði og biður konung að minnast Guðmundar vinar síns og veita honum biskupsdæmið. Konungur varð fár við og kvað slíkt af ofdirfsku mælt, „en þó skaltu nú,“ segir hann, „þegar í stað láta sækja hann.“ Svo var gjört og er Guðmundur kemur segir konungur: „Getirðu nú í stað svarað öllum spurningum guðfræðinga minna, svo þér í engu fatist, svo skal ég veita þér biskupsdæmið í Skálholti, en treystirðu þér eigi til þessa þá vík út aftur.“ Guðmundur kvaðst búinn að freista þessa. Gengu þá guðfræðingarnir fram og þreyttu við hann spurningar, en þar kom hvergi er þeir gætu rekið Guðmund í vörðurnar og undraðist konungur mjög lærdóm hans og gaf honum biskupsdæmið. Var hann síðan fluttur á biskupsgarð eins og þá var títt.

Nokkru síðar kemur stiftprófastur og kærir fyrir konungi ólög þau er hann hafi beittur verið af Birni skenkjara. En er konungur segir hönum að Guðmundur sé biskup orðinn og honum æðri, sá stiftprófasturinn sitt óvænna og sættir sig við Guðmund og fékk honum næga peninga í heimanmund með dóttur sinni. Guðmundur varð síðan biskup í Skálholti, en Björn var alla ævi skenkjari hjá konungi.