Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Blákápa á Barði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Blákápa á Barði

Barð í Fljótum stendur vestan undir fjallsenda og dregur nafn af fjallinu sem heitir Barð. Skilur það fjall Vesturfljót frá Austurfljótum. Fram af Austurfljótum er Stífla og þar fram af Stífluafrétt. Fram af Stíflu og Ólafsfirði er Lágheiði. Þangað er frá Barði hálf þingmannaleið.

Nú er frá því að segja að eitt sinn í fornöld bjó á Barði kona sem Blákápa hét, eða að minnsta kosti var almennt kölluð svo. Sumir segja hún væri ráðskona hjá Barðsbræðrum. En þeirra hefi eg ekki frekar heyrt getið. Blákápa þessi hafði sel á Lágheiði, en enga hafði hún þar selkonu í, heldur gekk hún sjálf á hverjum morgni fram í selið og var jafnan komin heim í Barð á hádegi, en ekki gekk hún alfaraveg, heldur þvers yfir Austurfljótin og upp á fjallið Holtshyrnu og svo fram allar fjallseggjar. Hlóð hún undir sig garð þvers fyrir Barðið yfir þver Austurfljótin og upp eftir Holtshyrnu. Sést sá garður enn og heitir Blákápugarður. Selið á Lágheiði heitir Blákápusel og tilheyrir Barði. Blákápa þessi var stórrík og gróf auðæfi sín – einkum kvensilfur sitt – niður uppi á Holtshyrnunni í þúfu einni og mælti svo (um) að enginn skyldi finna þau nema sá, sem gengið gæti aftur á bak eftir öllum Blákápugarði heiman frá Barði og upp á Holtshyrnu og liti aldrei við. Sá sem það gæti skyldi finna öll hennar auðæfi og eiga þau. Þetta hefir enn engum heppnazt.[1]

  1. Haldið er nú ómögulegt mennskum manni að hafa eins hraða göngu og Blákápa. En ég held sérlega frískur maður gæti á klukkustund gengið frá Barði yfrá Holtshyrnu; þá kann reyndar að vera nokkru lengra eftir, en það er meginpart slétt fjall. – Enn er þess að geta að engjapartur einn á Vémundarstöðum í Ólafsfirði heitir Blákápuengi, en um það hefi ég ekkert heyrt frekara [Hdr.]