Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Borgarvirki og víga-Barði

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Borgarvirki og Víga-Barði

Skammt frá bænum Stóruborg í Vesturhópi er hamraklettur hár og mikill um sig á hæð nokkurri eða ási fyrir vestan Víðidalsá; hamar þessi er kallaður Borg eins og bærinn eða þó heldur Borgarvirki. Að norðan- og vestanverðu er virkishamarinn ekki minna en tíu faðma á hæð, myndaður af náttúrunni af eintómu fimmstrendu stuðlabergi; að sunnanverðu hefur virkið verið miklu lægra af náttúrunnar völdum, en þar hafa fornmenn hlaðið girðinguna af svo miklum stórgrýtisbjörgum að varla mundu fimm eða sex menn hreyfa þau úr stað og á sama hátt er austurhlið virkisins hlaðin, og hefur þar verið gengið í það þó dyrnar séu nú mjög fallnar. Virkið er tvö hundruð faðma ummáls og einkar víðsýnt af því eins og það sést langt að. Innan er virkið dalverpi lítið og grasi vaxið og uppsprettulind í, og sjást þar enn ummerki lítilla húsakofa. Af því enginn þykist vita með vissu hver þetta virki hefur hlaðið þar sem mannaverk eru á því, hafa þeir sem um það hafa ritað getið sér til að það mundi annaðhvort hafa gjört Finnbogi rammi, meðan hann bjó á Borg, til varnar sér fyrir ófriði Vatnsdæla, þó hvorki sé þess getið í Vatnsdælu né Finnboga sögu, eða þá Barði Guðmundsson frá Ásbjarnarnesi til varnar sér og félögum sínum fyrir Borgfirðingum eftir Heiðarvígin, og vantar því máli einungis til sönnunar of meinlega aftan af Heiðarvíga sögu sem hvergi fæst nú fullkomin, því munnmælin hafa að fornu og nýju, að minnsta kosti frá dögum Páls Vídalíns og allt til þessa dags, hiklaust eignað Barða, sem almennt er kallaður Víga-Barði, og félögum hans Borgarvirki og fullherma að það hafi staðið og eigi að standa í henni.

Eftir að þeir Víga-Barði höfðu hefnt Halls bróður hans á Borgfirðingum, segja munnmælin, lét Barði búa til virki þetta af því hann bjóst við að Borgfirðingar mundu leita norður til hefnda eftir mannskaða þann sem þeir höfðu beðið fyrir Norðlendingum í Heiðarvígum. Barði lét ekki aðeins gjöra virkið, heldur setti hann menn á tveim stöðum, annan á Þóreyjarnúpi ef Borgfirðingar færu Tvídægru, en hinn á Rauðanúpi ef þeir kynnu að fara Arnarvatnsheiði, annaðhvort ofan í Víðidal eða Vatnsdal. Skyldu njósnarmenn þessir kynda vita ef þeir yrðu varir Borgfirðinga. Barði var nærgætur um þetta því Borgfirðingar komu, en ekki er getið hvora leiðina þeir fóru að sunnan. Fór þá Barði í virkið og menn hans, en Borgfirðingar settust um það og sóttu að nokkrum sinnum, en varð ekki ágengt. Ætluðu þeir þá að svelta virkismenn inni og segir þá ein sögnin að þeir Barði hafi haft nógar vistir og hinir hafi snúið frá við svo búið eftir hálfan mánuð.

Aðrir segja svo frá, og gekk sú sögusögn einnig á dögum Páls Vídalíns, að svo hafi þrengt að mat virkismanna áður Borgfirðingar hurfu frá umsátrinu að allar vistir voru upp gengnar nema eitt mörsiður. En seinasta sinnið sem Borgfirðingar sóttu að hafi einhver af virkismönnum kastað mörsiðrinu ásamt grjóti út í flokk Borgfirðinga virkinu til varnar. Hafi þá Borgfirðingar ráðið af því að gnógt vista væri í virkinu og því horfið frá. En nú gengur sú sögusögn nyrðra að Víga-Barði hafi einu sinni orðið þess áskynja að Borgfirðingar voru að þinga um það fyrir utan virkið að virkismennina mundi bráðum þrjóta vistir. Hafi Barði þá kallað á bryta sinn og beðið hann að sýna sér hversu mikinn forða þeir ættu eftir. Kom þá brytinn með mörsiðrið og sagði það væri eitt eftir af matvælum þeirra. Barði hjó mörsiðrið sundur í miðju og fleygði báðum stykkjunum út af virkinu í þröng Borgfirðinga þar sem þeir voru að ræða um vistaskortinn. En við þetta bragð Barða er sagt þeir hafi snúið svo búnir suður aftur og ætlað að virkismenn hefðu matarnægtir miklar. Báðum þessum frásögnum fylgir málshátturinn: „að kasta út mörsiðrinu.“