Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Brunaberg

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Brunaberg

Í sögu Gests Bárðarsonar, pr. á Hólum 1755, VI. kap., er sagt að Skrukka móðir Kolbjarnar dó fyrir steini þeim sem Snati hundur Gests hratt á hana. En þegar Hrútfirðingar og Miðfirðingar voru einu sinni í göngum tjölduðu þeir eitt kvöldið undir Rauðsgilshæðum hjá steini þeim er Skrukka hlaut bana af. Gangnamönnum var kalt mjög um kveldið og hituðu þeir sér með því að róta upp moldinni kringum steininn. Þeir fundu þar þá bein Skrukku og þóttu heldur stórkostleg. Þeir vildu færa beinin til kirkju, en náðu þeim með engu móti upp þegar þeir ætluðu burt með þau. Stímuðu þeir nú við þau fyrst lengi, en síðast tóku þeir það ráð að þeir brenndu beinin upp til ösku. Síðan er bergið kallað Brunaberg.