Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Brytinn í Skálholti

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Ólafur er maður nefndur; hann var bryti í Skálaholti. Hann varð einu sinni fyri reiði ráðskonunnar og stefndi hún honum burt af staðnum með fjölkynngi sinni. Ólafur hljóp þá suður um heiði og kastaði öllum lyklum staðarins í fell það er síðan er kallað Lyklafell og stendur á takmörkum Árnes- og Gullbringusýslna. – Ólafur snéri þá aftur er hann var laus orðinn við lyklana og fór um skarð það sem við hann er kennt og Ólafsskarð heitir. Hélt hann ferðinni austur í Skaftafellssýslu og fannst dauður hjá Brytalækjum, en þeir renna í Hólmsá sem fellur vestanvert við Skaftártungu og út í Kúðafljót.