Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Daði í Snóksdal

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Daði í Snóksdal

Daði Guðmundsson í Snóksdal var svo frægur af framgöngu sinni móti Jóni biskupi Arasyni og þeim feðgum um það bil sem siðabótin var að komast á hér á landi að hvert barn á Íslandi kannast við hann. Það er sagt að hann hafi átt brúnan hest sem var hesta beztur á sinni tíð. Hann átti einnig skip sem hann lét menn sína róa á undir Jökli.

Eitt haust var formaður hans heima í Dölum með skipið og alla hásetana. Segir þá Daði eitt kvöld þegar hann snæðir: „Nú borða Jöklamenn slóg í kvöld.“ Þetta heyrir formaður hans og tekur það svo sem Daði sé orðinn leiður á heimaveru hans. Daginn eftir er norðanrok og blindbylur. Þá kallar formaður háseta sína og siglir af stað; var kafald og rok svo mikið að skipverjar sáu aldrei árarlangt frá skipinu. Á leiðinni undir Jökul heita Bollaleiðir. Loksins siglir þá skipið hjá skeri einu; þá mælti formaður: „Þekkið þið þangið á honum Bolla, piltar?“ svo var hann kunnugur og viss að rata. Nú siglir hann undir Jökul á Hellissand og kemur þar um kvöldið. En þegar hann lendir kemur þar Daði í Snóksdal ofan í kleifarnar á Brún sínum því hann hafði orðið hræddur um skipið og reið því af stað undireins og skipið fór. Það vita menn mesta reið á einum hesti, að ríða á tíu stundum frá Snóksdal og undir Snæfellsjökul.

Öðru sinni gerðu mótstöðumenn Daða honum fyrirsátur og strengdu þrjá strengi hvern fyrir ofan annan þvert yfir götuna þar sem leið Daða lá um í náttmyrkri; gerðu þeir það til þess að missa því síður af honum. Þegar Daði kom að strengjunum brá hann sverði og hjó þegar sundur efsta strenginn, en Brúnn stökk með hann yfir miðstrenginn og þann lægsta; á þann hátt slapp Daði úr höndum fjandmanna sinna.