Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Dysjar við Haugalæk

Úr Wikiheimild

Í Hróarstungu í Múlasýslu eru fjórir bæir er svo heita: Gunnhildargerði, Nefbjarnarstaðir og Geirastaðir; eru þessir þrír í röð út og fram eftir sveitinni, Gunnhildargerði fremst, en Geirastaðir yzt og Nefbjarnarstaðir í miðið. Þar upp af er hinn fjórði bær er Galtastaðir heita. Þessir bæir eru kenndir við bræður þrjá og móður þeirra er bjuggu á þeim í fornöld.

Í landareign þeirra bræðra var ás einn sem svo lá fyrir að allir áttu hlut í ásnum; hann er nú kallaður Tunguás og er það hið bezta beitarland.

Galti vildi hafa ásinn allan, en þeir stóðu á móti Geiri og Nefbjörn. Komst svo langt um síðir að þeir sömdu með sér að berjast um landið. Var ákveðið að fundur þeirra skyldi verða við læk er rennur milli Galtastaða og hinna neðri bæjanna. Fer ekki nein sögn um vopnaviðskipti þeirra, nema að þeir féllu þar allir bræður og eru þar heygðir og Gunnhildur gamla, því hún bað þegar hún dó að dysja sig hjá sonum sínum. Er hennar dys og Geira og Nefbjarnar fyrir austan lækinn, en Galta er fyrir norðan lækinn, því þegar hann var orðinn sár til ólífis stökk hann yfir breiðan pytt sem þar er í læknum og norður yfir, því hann vildi falla á sínu landi.

Það er ennfremur sögn að maður hafi eitt sinn farið að grafa í Galtadys í fjárleit og þegar hann var nokkuð búinn að grafa lagðist hann til svefns. Þykir honum þá koma til sín kvenmaður og segja: „Ekki er þér til neins maður minn að grafa hér, því hér er ekki fjárvon, en í grænu þúfunni hjá stóra pyttinum, þar er gull.“ Maðurinn vaknaði við drauminn, hætti við að grafa, en um þúfuna veit enginn enn í dag.

Dysjarnar sjást glöggt enn og eins skotið í Galtadys. Lækurinn er kallaður Haugalækur og hef ég ekki heyrt meira hér um.