Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Einar í Skaftafelli
Einar í Skaftafelli
Þannig er ég kominn að grein þeirri um Einar heitinn í Skaftafelli í Öræfum að Nikulás föðurfaðir konu minnar, Ragnhildar Jónsdóttur, ólst að miklu upp hjá Einari og föðursystur sinni Guðlaugu Bjarnadóttur frá Núpstað í Fljótshverfi. Sagði tengdafaðir minn Jón ýmislegt eftir föður sínum er ég hefi að nokkru leyti gleymt og sleppi því er ég man ei til vissu.
Einar, er ég ætla Eiríksson af svonefndri Eiríksætt frá Á á Síðu – eins og Núpsstaðarættin –, bjó á Skaftafelli mjög lengi. Það veit ég ei hvört hann var fleirgiftur en áðurnefndri Guðlaugu, en börn áttu þau mörg, þar á meðal Eirík og Jón. Urðu þau kynsæl mjög í Öræfum, enn í dag, og víðar. Einar var nafnfrægur maður að mörgu, helzt fyri smíðar sem þóktu taka sérlega fram öllum á þeim tímum sunnan- og austanlands að snilld og traustleika,[1] hvörs vegna og að maðurinn var dulur. Ýmsir ætluðu að hann hefði vísdóm af huldum rökum eins og títt var að halda á fyrri öldum og til skamms tíma.
Sú saga er víða, og tengdafaðir minn sannaði hana eftir föður sínum, að Einar hafi eitt sinn á Eyrarbakka falað sterklega byssu af skipherra þar, en ekki fengið, sagt þá óþarft væri að fala þetta tól, því hann gæti smíðað aðra jafngóða en varanlegri, skipherrann tekið það fyri skrum og út af því slegið veð, 100 dölum hvörr. Ekki veit ég hvört það vóru spesíudalir eða sléttir dalir sem vóru 64 s[k]. spesi[e] eða cróna. – Raunin átti að koma fram árið eftir á sama stað. Báðir komu þar ákveðinn tíma með byssurnar. Einar hafði byssu með koparhlaupi skrúfað saman[2] og er þær vóru reyndar gafst hin íslenzka betur svo Einar hlaut veðféð. Sögunni fylgdi að skipherrann hefði falað byssuna af Einari og ekki fengið fyrr en hún kostaði jafnmikið og veðslátturinn, nefnil. 100 dali.
Þegar Nikulás áðurnefndur var fimmtán ára var Einar hættur að róa. Mun það láta nærri að hafa verið milli 1730 og 1740. Skip gengu þá í Öræfum, og einn róðradag var Einari sérlega óvært og jafnan gengið frá smiðjuverki sínu, sem ekki skyldi hafa verið vandi hans, út og inn þar til hann hefði sagt Nikulási að taka hesta tvo, því hann myndi ekki komast hjá að horfa á ósköpin, riðið síðan suður á Ingólfshöfða. Hvönær sem Nikulás komst samsíða Einari hafði hann verið blóðsvartur í andliti og riðið svo sem mögulegt var þó vegur sá sé langur. Þegar á Höfðann kom vóru bæði skipin hvolfd eða kaffærð á boðunum austan undir höfðanum, því þar er útbrim. Menn nokkrir höfðu verið á kjöl öðru skipinu. Þekktu þeir þar formanninn sem skyldi hafa verið ástvin Einars. Annað varð ekki gjört en hvör veifaði til hins. Er þá sagt að enginn verkfær kallmaður yrði eftir í Öræfum, og svo sem orð lék á að vænna og duglegra fólk hefði þar verið áður en í öðrum sveitum sýslnanna, hefði það trautt eða ekki náð sér aftur til skamms tíma, og er það náttúrlegt þar sem héðan og þaðan komu að þeir eð giftust eða aðstoðuðu ekkjurnar.[3]
- ↑ Til merkis að hann hafi smíðað trausta spæni er – sem ég veit að satt er – að ég brúka nú daglega spón úr nautshorni eftir hann er hann gaf áðurnefndum fóstursyni sínum, hann syni sínum, hann dóttur sinni, konu minni. Gröftur er að mestu máður af, skaftið fábreytt. [Hdr.]
- ↑ Nú er það ei orðið einsdæmi því séð hefi ég byssu með koparhlaupi er íslenzkur maður ólærður segist hafa smíðað að öllu leyti, og aðra til er hann sagði góða, en hina ei betri en í góðu meðallagi. [Hdr.]
- ↑ Um Einar í Skaftafelli sjá ennfremur Einar í Skaftafelli.