Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Enn um Hafnarbræður
Enn um Hafnarbræður
Einu sinni voru þeir bræður tóbakslausir, en tóbak hvergi nærlendis að fá. Undu þeir því illa. Einu sinni sáu þeir fiskiduggu bera við hafsbrún. Tóku þeir þá áttæring sinn og réru til duggunnar; tóku þeir vel á móti þeim. Föluðu þeir af þeim tóbak og buðu þeir Jóni ofan í káetu að sækja tóbakið með skipherranum, en Hjörleifur hafðist við á þiljum uppi á meðan. Skipherrann læsti káetunni og veitti Jóni góðgjörðir. Í þeim svifum heyrði Jón hljóð mikið, brá við sem harðast, mölvaði dyrnar og hljóp út og á þiljur upp. Sér hann þá hvar Hjörleifur hangir á fótum uppi í reiðanum og ætla þeir að fara að tappa úr honum blóðið með því að renna beintöflu úr hvirfli honum, því mælt hefir verið að hollenzkir sæktist mjög eftir blóði úr rauðbirknum eða freknóttum mönnum. Jón greip þá tré mikið er á þiljum lá, og lofaði að drepa þá alla og mölva skipið ef þeir léti hann ekki lausan. Síðan rak hann alla skipverja í annan enda skipsins, en skipaði Hjörleifi að ferma bátinn með nauðsynjum þeim er þeir helzt þörfnuðust. Eftir það héldu þeir leiðar sinnar og heim aftur.