Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Enn um Snjólf sterka

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Snjólfur Finnsson sterki var kraftamaður einhver hinn mesti. Það er alsagt um hann það hann hafi borið hestinn sinn í fanginu kringum bæinn sinn. Ekki hefi ég heyrt hvar hann bjó annað en það hafi verið einhverstaðar á Síðunni.

Einu sinni bilaði stoð úr fjósi hjá nábúakonu hans, ekkju þar á Síðunni; það var um vetrinn og seig þekjan inn í fjósið og fraus svo. Sendi hún þá til Snjólfs í vandræðum sínum og bað hann liðsinnis. Hann mældi út lengd á stoðinni, hlóð svo stöpul af torfi og reiðing er hann ætlaði mátulega hátt, smeygði sér þar undir hálfbognum og rétti upp þekjuna frerna þar til mátulegt var. Að þessum starfa loknum setti hún fyrir hann mjólkurtrog með súru skyri og rjóma út á og lauk hann við það. Þar með borgaði hún honum handtakið sér á parti.

Snjólfur Finnsson sterki átti son þann er Þorgeir hét. Hafði hann verið ákaflega sterkur. Hans sonur var Snjólfur á Gamlabænum, sterkur maður er átti Ólöfu Gísladóttir í Arnardrangi Þorsteinssonar í Arnardrangi og Steinsmýri Þorsteinssonar er átti Þórunni Salómonsdóttir í Mörk og Ingibjargar Jónsdóttir á Steinsmýri Eiríkssonar í Holti.