Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Er hann feitur, lagsmaður?

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Er hann feitur, lagsmaður?“

Tveir menn tóku sig einu sinni saman um að stela; þeir gjörðu sig út til að stela sauðkindum og fóru í fjárhús á næturnar. Einu sinni sem oftar fara þeir í þeim erindum af stað og ætla að ná sauð á kirkjustað nokkrum. Á þessum kirkjustað var sauðahús í túninu og kirkjan skammt frá bænum og blasti móti bæjardyrunum. Smalinn á kirkjustaðnum var fyrir mörgum vikum orðinn veikur og lá í rúminu, en enginn vissi hvað að honum gekk utan það sem hann sagði að sér væri svo illt í fótunum að hann gæti eigi á þá stigið og yrði því sífellt að liggja. Hann lá upp á lofti þar sem vinnufólkið hitt var.

Um vökuna koma þjófarnir að kirkjustaðnum og semja svo sín á milli að annar skuli vera á höttunum í kirkjugarðinum meðan hinn fari í sauðahúsið. Þegar þeir voru búnir að semja þetta fer sá er í húsið átti að fara, en rétt í þeim svifunum þarf einhver vinnumannanna út um vökuna og þegar hann lýkur upp bænum sýnist honum maður sitja á leiði í kirkjugarðinum; hann heldur að þetta sé draugur úr kirkjugarðinum, en hafði ekki orðið slíks var áður á ævi sinni og fer að verða forvitinn því hann var með öllu óhræddur við drauga og afturgöngur. Horfir hann litla stund á þetta sem á leiðinu var og fer svo inn og segir frá sjón sinni. Í bænum verða þá sumir hræddir, en sumir létu ekki neitt bera á sér og skeyttu því engu, en smalinn í rúminu var sá eini er langaði til að sjá þetta og biður þess vegna vinnumanninn að bera sig ofan því hann gat ekki á fætur stigið. Vinnumaður skorast undan, ekki af hræðslu því hann ætlaði út aftur, heldur þótti honum óþarfi að strákurinn í rúminu færi að fást við að reyna að sjá þetta. Eftir langar þrábænir stráks lætur vinnumaður til leiðast að bera hann ofan og út. Hann tekur strákinn, sveiflar utan um hann rekkjuvoð og fer út með hann. Strákur vill koma nær og nær vofunni á leiðinu og vinnumaður lætur til leiðast að bera hann út í kirkjugarð. Þegar þangað kemur sjá þeir að vofan er í reglulegu mannslíki og þegar þeir voru rétt komnir að vofunni á leiðinu þá kallar hún lágt upp og segir: „Er hann feitur, lagsmaður?“ Vinnumaður átti ekki von á þessu og verður hálfhverft við, en áttar sig þegar og segir: „Þú hefur hann nú, hvort hann er feitur eða magur,“ og fleygir stráknum um leið í vofuna á leiðinu. Strákur tekur þá óvart til fótanna og hleypur inn með óhljóðum af hræðslu, en vinnumaður mætir þjófnum með sauðinn úr húsinu sem var á leiðinni til lagsmanns síns á leiðinu. Sá sem á leiðinu sat hélt að lagsmaður sinn kæmi með sauð þar sem vinnumaðurinn kom með strákinn. Þannig komst þessi sauðaþjófnaður upp, en um strákinn komst það upp að hann hafði gjört sér þessa fótaveiki upp af leti og óknyttum.