Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Eyddir bæir í Einholtssókn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Eyddir bæir í Einholtssókn

1. Hafnagarðar, 2. Sandholt, 3. Hæð, 4. Einbúi, 5. Syðri-Flatey, 6. Skinney, hvar 18 hús hafi verið með hurðum á hjörum. Öll þessi býli hafa eyðzt af vatna ágangi úr Heinabergs- og Fláfjallsjökli þó ekki hafi farið sögur af eldgosi úr honum nema menn þóktust séð hafa hér um bil ár 1838 eld í honum upp úr hrauni sem ekki sást álengdar úr honum nálægt Hólmsáar útfalli. Kom þá mikill vatnsagi úr jöklinum og stórhlaup um sumarið sem flutti jakana langt fram til sjávar, svo stóra sem maður væri á hesti til að sjá. Flestir nefndir bæir voru eyðilagðir fyrir næstliðinn mannsaldur, ekki af því þeir stæðu nær jöklinum en aðrir bæir, heldur af því að vatnahlaupin úr jöklinum hafa borið leir og sand í farvegi vatnanna so að vötnin flóðu yfir flatlendið og ollu með því jafnflæði vatna og sjávar meir en áður, og svoleiðis er mesti hluti Hornafjarðar til orðinn og útbreiddur. Árið 1860 eyddi vatnsrigning miklum jarðvegi og skóglendi um júní- og júlímánaðamót af því gaddur var í jörð so að jarðvegurinn þoldi ekki vatnaþyngslin á brattlendi og flóði með vatninu; þá tók af Haukafellsbærinn og varð að byggja hann annarstaðar, líka Eskifell í Lóni að miklu leyti.