Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Fljótaferð Bjarnar Jónssonar skafins

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Björn er kallaður var skafinn var mesti afburðamaður að afli svo ei vissi hann þá af manni er væri jafnsterkur sér og hélt því spurnum fyrir um sterka menn.

Eitt sinn var honum sagt að vestur í Fljótum væru feðgar tveir á einum bæ, þeir væru álitnir sterkastir menn í Norðurlandi, og þótti honum mjög fýsilegt að reyna atgjörvi þeirra. Er ekki að orðlengja það að Björn gjörir sér ferð vestur til að finna þá feðga og hittist svo á að hann kemur á heimili þeirra snemma dags. Voru feðgar á sjó, en bóndadóttir var í skemmu að gyrða kerald og ýtti gjörðunum á með höndunum. Birni sýndist hún þreklega vaxin; hann biður hana að gefa sér að drekka; gengur hún burt eftir drykknum, en Björn fer að reyna að ýta til gjörðunum og getur ekki þokað þeim hið minnsta. Í því kom stúlkan aftur með lýsi í skál og réttir að Birni, en hann kveðst ei vanur að hafa lýsi fyrir þorstadrykk. Hún brosti við og fór burt með lýsisskálina, en kom aftur með mjólkurskál og drakk þá Björn vild sína, en stúlkan heldur áfram sínu verki, og var Björn þar hjá henni í skemmunni og fer að tala við hana um það að hún muni vera sterk. Hún segist ekki vera neitt sterk, „en faðir minn og bróðir eru mjög sterkir menn.“ Nú fer Björn að tala um við hana að það væri gaman fyrir þau að glíma, en hún tók því lítt, en þó varð það af að þau fóru að glíma og fann Björn að bóndadóttir var bæði sterk og glímin og það svo að Björn örvænti að hann mundi geta fellt hana og tekur því það ráð að hann sleppir takinu með hendinni annari og bregður henni upp á lær stúlkunnar, en henni varð bilt og sleppti tökunum og tók um hönd hans, en þá brá Björn henni svo hún féll. Hún stóð upp og sagði: „Nú hafðir þú prett við, og engin frægð var þér þetta, og er þér gagn að ég segi ekki eftir þér.“ Hann kvað sér þetta gaman verið hafa. Er hann þar um daginn og veitir stúlkan honum vel.

Um kvöldið koma þeir feðgar heim og þótti Birni þeir ærið mikilfenglegir. Vóru þeir hinir skrafhreifustu við Björn og er hann þar um nóttina í góðum fagnaði; en ei þótti honum ráðlegt að auglýsa erindið og sýndist þeir mundi ei sitt meðfæri.

Um morguninn býst Björn af stað austur aftur, en þeir feðgar fóru á sjó og fór hann með þeim ofan að naustum og var það sexæringur er þeir höfðu á sjó, og vóru þó aldrei nema tveir einir á skipi. En áður þeir fóru á skip gengu þeir inn í sjóskemmu mikla er þar stóð á bakkanum og þeir geymdu í sjóföng sín og tóku hákallslim og átu og drápu upp úr lýsi; byrjaði sinn á hvorum enda beitunnar og mættust í lykkjunni; og þóttist Björn vita að þetta mundi vera vani þeirra. Eftir það kvaddi hann þá og hélt heimleiðis aftur með litla frægð af þeirri för. Og endar svo frá honum að segja.