Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Fornufjós

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þegar fjórbýli var hérna í Steinum var fjósið og heygarðurinn hér um bil rúmt hundrað faðma frá bænum fram á túninu. Þar voru tíu básar hvorumegin í fjósinu, en geldnaut í öðru húsi. Einu sinni eftir vöku voru tvær kvensur að mjólka kýr, önnur á yzta básnum vestan megin, en hin á innsta básnum. Voru þær að skrafa saman. Þá heyrði sú er var á yzta básnum undirgang mikinn, hætti því ræðunni og hlustaði eftir hvað var, en hin sleit ræðuna, setti frá sér skjóluna á flórinn. Sá hún þá hvar afar stór maður kemur í dyrnar, með svartan barðastóran hatt og [í] mórauðri úlpu allt í knésbætur. Dregur hún sig þá upp í básinn undir kúna, en slökkti þó áður ljósið. En er hann var innar hjá kominn stekkur hún heim slíkt er af tekur og segir frá. Brugðu þá allir karlmenn við er heima voru og fóru til fjóssins. fundu kvenmanninn dauðan og átján stungur á lífi hennar, en báðar föturnar tómar. Síðan var fjós og heygarður þar af lagður, en byggður í fjósstæðinu kálgarður og sér þessa enn merki.