Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Frá Eyjólfi Péturssyni í Reyn í Hegranesi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Frá Eyjólfi Péturssyni í Reyn í Hegranesi

Eyjúlfur Pétursson í Reyn í Hegranesi[1] var vitur maður og skáld gott; vildi stundum verða að áhrínsorðum er hann kvað, að sagt er. Var það til merkis um yrki hans eitt að hval rak um aldamótin á Felli í Sléttuhlíð; var þá harðæri í landi hér svo lá við mannfellir, þar allir voru skepnufáir mjög. Fóru menn þess vegna þangað úr öllu Hegranesþingi nálægt að segja. Var einn af þeim Eyjúlfur bóndi frá Reyn í Hegranesi, því jafnan var hann fátækur þó hann héldist inn í húsum að kalla. Fyrir hvalnum var Árni prestur sem þá var í Felli.[2] En er Eyjúlfur var þangað kominn fékk hann hjá skurðarmönnum að reyta sér afskurðarbita er skorið var utan af beinum og smávegis. Hafði hann belg undir hendi því hann var svo snauður að fé að hann gat ekki borgað. En er hann var búinn að fylla belginn og kominn með hann upp í fjöruna mætti prestur hönum, kastaði til hans illyrðum og kvað Eyjúlf hafa stolið hvalnum. Skyldi hann aftur laust láta það stolna; varð þá Eyjúlfur að hella úr belgnum hvalnum og skila því aftur, hvörnig sem hann afsakaði sig. Gekk hann þá burtu eins og hann kom, með tóman belginn undir hendinni, hryggur og reiður, og kvað vísu þessa til prests:

Á þér hrína ósk mín skal,
allir kraftar styðji,
að gefi þér aldrei guð minn hval
grátandi þó biðji.

Þótti mönnum þetta harðræði mjög ókristilegt og valla þolandi. Er mælt að staka þessi yrði mjög að áhrínsorðum því þar hefur síðan aldrei hval rekið.

Bjó hann í Reyn til elli og var hjá hönum jafnan þröngt í búi sem von var því hann var fjölskyldumaður og þá hallæri mikið í landi. Þau ár átti hann jafnan nokkrar ær og smalaði oftast sjálfur og geymdi fé sitt á vetrum. Var það eitt kvöld er hann fór að fé sínu hjá björgum nokkrum, því þar er mjög klettótt í Hegranesi, var þá orðið myrkt mjög og vildi hann heim fara, en er hann var hjá mestu klöppunum sýndist hönum hann koma að bæjardyrum. Gekk hann þar inn og eftir göngum þar til hann sér ljósbirtu; kemur hann þá að baðstofuhurð; var nokkurt bil fyrir ofan milli dyratrés og hurðar og skein þar út ljósbirtan. Litast hann þá um og sá fyrir ofan hurðina logaði ljós á lampa í öðrum enda hússins. Kona sat á palli nálægt ljósinu; fyrir framan konuna stóð borð; var þar á lík og óhjúpfært. Sat konan hjá líkinu og söng vess þetta:

Hörð virðist hryggðarpína
hjartkærum hlut að skiljast frá;
sárt er að missa sína
sæla vini jörðu á,
en meiri neyð mun sá reyna,
mest í deyð sárt skal kveina
langt frá leið læknirs allra meina.

Að þessu búnu snýr Eyjúlfur aftur til dyra og verður konan ekki vör við hann. Gekk hann út úr bæjardyrum, en er hann var út kominn sá hann ekkert nema tóma klöppina. Bjó hann í Reyn til elli og varð gamall mjög og hrumur. Þá hætti hann við búskap og fór um nokkurn tíma, en hafði þar þó aðsetur sitt.

Það var eitt sinn að hann fór suður í Voga og á Suðurnes. Var hann ríðandi og hafði hest í taumi. Var hönum þar sem hann kom gefið þar til hann hafði fengið klyfjar á hestinn því hann hafði ekkert að borga með. Var hönum ætíð vel fagnað og vel virður af öllum, því hann var mjög fróður og skemmtinn. Fann hann að lokum einn formann í Vogunum sem fiskaði bezt af öllum svo það var að ágætum haft. Hafði þessi maður aflað vel eins og hann var vanur. Kom Eyjúlfur til hans í fjöruna er hann var lentur og mæltist til hann gæfi sér nokkuð eins og aðrir, en hinn kvað það enga skyldu, þar þessir umrenningar ætti nóg fyrir sig, þó þeir væri að biðja að gefa sér því þeir vildu hafa allt af öllum. Hrakyrðir hann Eyjúlf mjög og varð þeim mjög að orðum. Eyjúlfur hryggðist, fór burtu og kvað um leið vísu þessa:

Fyrst mín ei grundar meinin vönd,
mundu ræðu slíka,
Guðs alvoldug hjálparhönd
hún skammti þér líka.

Er mælt að þetta gengi mjög eftir ósk Eyjúlfs. Brá svo við að þessi formaður hætti að fiska eins og aðrir og varð að lokum sárfátækur og mannaþurfi og færu börn hans flest á sveit; og er hann úr sögunni. Fór Eyjúlfur norður eftir það. Giftist hann tvisvar. Ógjörla muna menn hvað fyrri kona hans hét. Börn átti Eyjúlfur með henni þau er á fót komust: Guðný dó barnlaus, en varð þó gömul; annað Pétur, fór hann suður í Gullbringusýslu, giftist þar og jók ætt sína; mun hún öll vera á Suðurlandi. Fór hann á gamals aldri norður að Hólkoti í Staðarsveit og deyði þar. Erlendur dó barnlaus. Börn Eyjúlfs og Margrétar seinni konu hans voru er á fót komust Sigríður og Arnbjörg. Sigríður átti Danjel Þorsteinsson; bjuggu þau í Þórðarseli við fátækt. Voru börn þeirra Sigurður, Danjel í Hvammi í Laxárdal nyrðri, Þórey á Neðstabæ, Bjarni og María, eru þau vinnuhjú hjá Gunnari Guðmundssyni á Hofi á Höfðaströnd. Arnbjörg Eyjúlfsdóttir átti Steffán Vigfússon. Lifir hún enn og er orðin mjög gömul; býr hún á Brekkum í Blönduhlíð; um börn þeirra veit ég ekkert. Móðir Eyjúlfs í Reyn var Guðrún Eyjúlfsdóttir Grímúlfssonar frá Fossárteig; var sá Eyjúlfur kallaður fjölkunnugur á sinni tíð eins og margir fleiri í þá daga.

Faðir Eyjúlfs í Reyn var Pétur bóndi frá Lóni í Viðvíkursveit; um ætt hans veit ég ekki. Drukknaði hann við Drangey. Bar það til á þann hátt að skip það er hann fór á lenti í Kolbeinsdalsárósi; fóru menn þá heim til sín, en er þeir vildu fara vantaði einn manninn. Var þá Pétur þar, en hafði aldrei komið á sjó í langa tíma. Gaf hann sig þá í ferð með þeim. Fóru þeir af stað í logni, sólskini og bezta veðri, tóku róðrarleiði fram og komust á Uppgönguvík. Var þá allra manna siður að liggja við stjóra fyrir framan fjöruna. Menn voru þá dasaðir mjög; ómætti þá upp af róðri og hita. Lögðust þeir við stjóra á víkinni og sofnuðu fast. Brast á mjög hastarlega sunnanveður. Urðu þeir ekki fyr við varir en hvölfdi undir þeim. Var þar þá annað skip á stjóra og sigamenn á eyjunni og sáu hvað gjörðist. Brast veðrið á eins snögglega og örskot. Komst einn á kjöl og hrópaði um hjálp, en forgefins, þar forráðsveður var. Hitt skipið komst á fjöruna með naumindum, en hefur ekki getað hjálpað manninum af kjölnum. Var það svo á stjóranum þar til að stefnið brotnaði frá og varð eftir á stjóranum, en skipið rak upp á víkina brotið mjög og manninn í öðru lagi dauðan.

Guðrún kona Péturs sem þá var orðin ekkja bjó á Lóni eftir mann sinn Pétur, með mörg börn og var Eyjúlfur eitt. Hafði hún verið nítján ára gömul þegar hún giftist Pétri; átti hún þá sex börn og öll ung. Seinna eignaðist hana Jón Kársson bónda á Heiði í Gönguskörðum. Fluttist hún þangað, bjó þar til elli og deyði þar. Áttu þau saman tvö börn.

Eyjúlfur var í Reyn og þar deyði hann afgamall. Hefur hann ort ljóðmæli, sálma, vísur og kvæði, þó ei sé hér um getið. Var hann í mörgu merkilegur maður og stórvitur. Eru það ein ljóð eftir hann eftir stafrofi í nafni hans, er þetta upphaf að:

Eftirlætis ununin
af þér mætust kemur,
hart þó græti hörmungin
hjartans sæti Jesú minn.

Eru þessar vísur mönnum alkunnar og lúkum vér svo þessum þætti.

  1. Eyjólfur var uppi 1744-1836.
  2. Árni Snorrason (1768-1833) var prestur að Felli í Sléttuhlíð 1796-1814.