Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Fuglar á Skeiðsdalsvatni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Fuglar á Skeiðsdalsvatni

Á vatninu á Skeiðsdal í Fljótum eru fuglar tveir. Þeir eru grámórauðir og stærri en kjói. Þeir sjást sjaldan. Það eru systkin frá Stóru-Þverá. Sumir segja þau hafi orðið fyrir þessum álögum án þess menn viti ljósar nein atvik um það, en sumir segja þau hafi átt barn saman í meinum og svo drekkt sér í vatninu eða þá verið drekkt í því, og það síðasta ætla ég helzt væri tilfellið.

Í vatninu sést aldrei silungur og aldrei sást á því önd eða nokkur eðlilegur fugl. Flestir smalar frá Þveránum og Skeiði sem ég[1] hef spurt um fuglana hafa séð þá einhvörn tíma einu sinni. Ég sá alls einu sinni (árin 1835-38) einn fugl á vatninu, en það var ógreinilega tilsýndar í þoku. Seinasta sinn sem ég hef til spurt að fuglarnir hafi sézt var 1849; þá sá Ásgrímur bóndi á Skeiði tvo fugla gráleita eitt kvöld á vatninu.

Nykurinn er á víxl annaðhvört ár í vatninu á Skeiðsdal, en hitt árið í vatninu á Heljardal.

  1. Þ. e. sr. Jón Norðmann.