Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Gaukshöfði (2)

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Gaukshöfðavað heitir efsta vaðið í Þjórsá niðri í byggð; það er í Þjórsárdal og dregur nafn af höfða nokkrum við ána; liggja sumstaðar klettar að höfðanum, en sumstaðar brattar brekkur. Höfðinn dregur aftur nafn af manni þeim sem Gaukur hét; hafði hann orðið sekur og átti sér bæli og vígi i höfðanum þar sem klettarnir eru mestir og réðst þaðan á menn til rána. Seinast komust þó ferðamenn, sem hann hafði ráðizt á, milli hans og bælisins og var hann veginn þar á sandinum fyrir framan höfðann og dysjaður síðan. Fyrir nokkrum árum féll jarðfall fram úr hlíðinni og fundust þar mannsbein og leifar af sverði, og hefur séð stað beinanna til þessa og hafa sumir látið mikið yfir stærð þeirra.