Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Gautavirki

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Gautavirki

Í Auðúlfsstaðaskarði ofanverðu er girðing nokkur sem heitir Gautavirki. Skarðið sjálft er nokkuð mjótt þangað til litlu fyrir neðan Gautsdal; þar slær það sér í sundur og er þar engi fagurt og æði breitt. Á rennur eftir skarðinu og heitir hún Auðúlfsstaðaá. Hún rennur fyrir sunnan engið þangað til hún er komin neðst á móts við það, þá beygist hún til útnorðurs nær því yfir þvert skarðið fyrir hraun sem fallið hefur fram að sunnanverðu í skarðinu svo að áin fellur nú fyrir norðan hól þann sem Gautavirki stendur á, en áður hefur hann verið fyrir norðan ána; það er Gautsdalsmegin. Hóllinn er hér um bil sjö faðma hár frá jafnsléttu. Hann er flatur að ofan nema hvað það er dálítill garðhringur á honum og er hann hálfur sjöundi faðmur á vídd. Hóllinn er lítið eitt uppdreginn og eigi víðari um sig að ofan en garðurinn er víður.

Gautur landnámsmaður bjó í Gautsdal og er sá bær við hann kenndur. Er svo mælt að hann hafi gjört sér virki þetta vegna óvináttu er hann var í við Auðúlf á Auðúlfsstöðum því Auðúlfur beitti land hans, en Gautur hafði ei bolmagn við honum.

Eftir því er sjá má á garðlaginu og landslaginu er það alllíklegt að þetta hafi virki verið; þar að auki er það af nafninu og sögunni að ráða.