Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Gautur og Þorgautur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Gautur og Þorgautur

Knappsstaðasókn í Fljótum er nú almennt kölluð Stífla. En í Landnámu merkir nafnið Stífla hóla þá er skilja sókn þessa frá neðri parti Austurfljóta. Neðsti bær í Stíflu vestanverðri er Gautastaðir. Skammt þar fyrir framan eru Þorgautsstaðir. Draga bæir þessir nafn af bræðrum tveim, Gauti og Þorgauti, er þá byggðu fyrstir manna. Er ekki ólíklegt að bræður þessir hafi komið með Nafar-Helga, með því bæir þessir eru fremstir í landnámi hans, austan Barðs, og þeir einu á því svæði sem draga nafn sitt af mannsheiti. Upp í fjallinu milli bæjanna er dalverpi lítið sem nú heitir Heljardalur, og á dalnum vatn eitt lítið.

Sagt er að Gautur og Þorgautur hafi deilt út af silungsveiði sem þá var mikil í vatninu með því Þorgautur þóktist eiga hana alla einn. Lauk þeim deilum svo að þeir flugust á við vatnið og fórust báðir í vatninu. Hvarf þá allur silungur úr vatninu og hefur aldrei nokkur branda komið þar síðan. En um þá bræður er það að segja að sálir þeirra urðu að grámórauðum fuglum sem alltaf eru á vatninu og verða þar líklega til dómadags. Fuglar þessir sjást helzt í þoku eða undan illviðrum; skjaldan eða aldrei sér þá nema einn í einu. Engrar annarar skepnu verður nokkurn tíma vart í þessu vatni né á, nema hvað sagt er nykurinn haldi þar til annaðhvört ár. – Lík þeirra bræðra rak upp norðanvert við vatnið og sjást dys þeirra þar að sögn kunnugra manna enn í dag. – Ekki er ólíklegt að dalverpið dragi nafn sitt af atburði þessum.