Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Grímur bóndi í Grímsey
Grímur bóndi í Grímsey
Fyrsti mennskur maður sem Grímsey byggði hét Grímur. Hann lenti skipi sínu í vík þeirri sem syðst er á eynni, og byggði sér þar bæ upp undan. Kallaði hann bæði víkina og síðan bæinn eftir henni Grenivík. Grímur þessi átti í miklu stríði og mannraunum við tröll þau og óvætti sem áður bjuggu á eynni. Eyddi hann þeim og stökkti með fulltingi goða sinna svo þau áttu sér hvergi vært nema á Eyjarfætinum, en hann er norðurhali eyjarinnar.
Grímur var trúmaður og reisti hof mikið og veglegt á hól einum þar á bjargsbrúninni skammt fyrir sunnan bæinn. Vígði hann hofið goðum tveim, líklegast þeim máttkustu, Þór og Óðni. Þegar Kolbeinn bróðir hans flúði úr landi kom hann við hjá Grími. Tók Grímur honum með miklum virktum og sýndi honum hof sitt og spurði hvernig honum litist á. Kolbeinn lét allvel yfir, „en vara máttu þig við að það verði ekki of stöpulhátt í vestanveðrunum“. „Já, varaðu skipið þitt að það verði ekki of kjalstutt í Sköruvíkurröst,“ svaraði Grímur og skilja þeir svo í hálfstyttingi. Nú siglir Kolbeinn unz hann kemur undir Langanes. Lendir hann þá í Sköruvíkurröst og liðast skip hans þar sundur. Rak kjaltréð úr því í Grenivíkurgjögrum í Grímsey.
Nú er að segja frá hofi Gríms að eitt sinn kom ofsalegt vestanveður svo hofið fauk austur af. Ráku viðirnir úr því síðan í vík einni lítilli vestan til á eynni. Voru viðirnir bornir þar upp og reisti þá Grímur hofið þar á Miðgörðum. Hélzt hofið þar síðan við unz kristni kom og kirkja kom í þess stað. Vík sú sem viðirnir ráku í var lengi kölluð Kirkjuvík, og svo er hún nefnd í gömlum skjölum. Nú heitir hún Sterta.
Frá Grími er það að segja að hann varð gamall maður, og bað hann að heygja sig þar sem hann sæi bæði til lands (Íslands) og hafs (úthafsins). Var hann þá heygður á klapparstapa einum sem stendur upp úr sjónum í Sandvíkurgjögrum. Er sá stapi enn í dag kallaður „Grímur bóndi“. Hann er íkúptur ofan og mikið lausagrjót upp á, ekki svo ólíkt því að menn hafi það þangað látið. Kona hans er heygð á öðrum stapa þar skammt frá. Er sá stapi kallaður „Kellingin hans Gríms“. Hóll sá sem hof Gríms stóð á heitir nú Kirkjuhóll og sjást þar ummerki mikillar húsasmíðar sem snúið hefir austur og vestur. Í austurendanum virðist hafa verið breiður steinstallur.[1]
Til frekari skýringar á því sem í sögunni 223 er getið um ferðalag Kolbeins, má geta þess að í Grímsey voru gömul munnmæli á þá leið að norðaustur af Langanesi væru eyjar sjö og héti hin stærsta þeirra Kolbeinsey og væri ey sú er Kolbeinn hefði ætlað til. Yfir eyjum þessum hvílir nú hulda sú að menn finna þær ekki. Þó er þess getið að eitt sinn komu hollenzkir á einu skipi nálægt einni þeirra og sáu rjúka á níu bæjum. Ætluðu þeir að koma nær og kanna eyjuna betur, en þá kom maður þar fram á annes eitt, veifaði einhverju móti þeim og skall þá á sótþoka, svo þeir hollenzku misstu sjónar af eynni og fundu hana ekki meir.
- ↑ Svo hagar straumum við Grímsey að spýtur sem út taka í Grenivíkurgjögrum austan í eynni reka oft vestan á eynni. – Eitt haust gróf ég lítið eitt í hofstæðið, en fann ekki annað en brunnin bein og kol. Í holum tveim sem sjást austarlega í steinstallinum, hvur suður frá annari með 4 feta millibili, segja eyjarmenn að goð Gríms hafi staðið. – Ofsaleg vestanveður koma oft í Grímsey. [Hdr.]