Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Greipur böddi og Guðmundur sýslumaður

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Guðmundur sýslumaður Sigurðsson á Ingjaldshóli[1] eftir hvern vísa þessi var kveðin:

Vizku hraður voldugur,
vestur á Ingjaldshóli,
er sálaður auðugur,
yfirvaldsmaður Guðmundur,

– er mælt að átt hafi fimm sýsluböðla og er þeirra getið í vísu þessari:

Greipur, Þorgils, Geiri og Jón,
gamall kagar hundur,
þessir allir flakka um frón,
fimmti er Sæmundur.

Einu sinni bar svo til að sýslumaður dæmdi mann nokkurn í Rifi til hýðingar, en daginn áður en hýðingin átti fram að fara sendir kona mannsins til Greips bödda og biður hann finna sig. Greipur gjörir það, en hún gefur honum mórauða sokka og biður að hann hýði mann sinn vægðarsamliga. „Það eru ekki margir,“ segir Greipur, „sem vilja vingast við mig og er illt ég sýni ekki lit á þessu.“ Daginn sem hýðingin átti fram að fara er sýslumaður viðstaddur. Greipur fer að hýða, en sem hann hefur flengt tvö dáðlaus högg segir sýslumaður: „Gjörirðu háð að lögunum, fanturinn þinn?“ Greipur reiddist og reiðir vöndinn hátt og lætur höggið lenda á sýslumanni og eins í öðru sinni og þriðja og segir: „Hafi þið, piltar, nokkru sinni séð slíka smán að sýslumaðurinn ykkar skuli vera böðulflengdur?“ Sýslumaður hleypur þá burt og segir um leið: „Leysi þið manninn, piltar.“


  1. Guðmundur Sigurðsson (1700-1753) var sýslumaður í Snæfellsnessýslu frá 1734 til dauðadags, bjó fyrst að Helgafelli, svo Hóli í Hörðudal og loks (sýslumannsárin) á Ingjaldshóli.