Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Grund í Eyjafirði (2)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Grund í Eyjafirði

Mælt er að í manndauðaharðæri nokkru í fyrnd hefði bóndi búið á Grund í Eyjafirði og átt jörðina; hefði hann verið efnagóður, en svo gjafmildur við þurfamenn að hann varð bjargþrota. Leitaði hann þá nágranna síns er engum gerði gott og átti matbirgðir nokkrar. Falaði bóndi mat af honum, en hann synjaði þangað til bóndi bauð honum jörð sína Grund, þá lét hann til leiðast og gjörði falt sauðarkrof eitt móti allri jörðinni. Gekk Grundarbóndinn að því kaupi, tók við krofinu, fór heim með og treindi á því líf sitt unz hann fékk aðra björg. Gekk hann svo frá jörðunni um vorið. Mörgum árum síðar átti hann leið fram hjá Grund og er mælt að þá kvæði hann vísu þessa:

Góð er hún Grund að sjá,
guð veit hver hana á,
þar um ég þenkja má
þegar ég ríð þar hjá.