Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Grundar-Helga, Örn og Eyvindur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Grundar-Helga, Örn og Eyvindur

Þegar svartidauði geisaði hér yfir land gjöreyddust heilar sveitir, en sumstaðar varð fátt fólk eftir og yfirvaldalaust. Þegar fólkið tók aftur að fjölga bjuggu systkin þrjú í Eyjafirði. Hét eitt Helga, hún bjó á Grund, en bræður hennar voru þeir Örn í Yxnafelli og Eyvindur á Eyvindarstöðum. Þau systkin höfðu sveitarráð.

Helga hafði gifzt auðugum manni er Þórður hét. Þau áttu son er sumir kalla Ásbjörn hinn fagra. Hann fór ungur utan. Helga hafði öll ráð yfir bónda sínum. Síðan andaðist Þórður; en er Ásbjörn frá það býr hann ferð sína út hingað og byrjaði vel. En þegar er hann kom við Langanes þá gjörði storm mikinn og hrakti hann vestur með landinu og kom loks inn á Breiðafjörð og braut skip við Látrabjarg, en bjargaðist af sundi við sjötta mann. Síðan fengu þeir sér hesta og riðu vestan til Eyjafjarðar og til Grundar og tók þar gisting að móður sinnar um nóttina. Ásbjörn segir henni að hann er þar kominn til þess að heimta föðurarf sinn. Helgu þótti illt að missa af fénu, en sá að hún myndi eigi fá því haldið. Hún hafði gjöra látið skála mikinn norður af bæjardyrunum. Hann var rammgjör mjög; voru gluggar tveir á veggnum niðri, en dimmt upp um skálann. Þar bjó Helga þeim hvílu og lét síðan húskarla sína vega að þeim sofandi um nóttina. Ásbjörn vaknaði við og þreif stokk frá rekkjunni og varðist með unz hann fékk steinshögg á höndina svo niður féll stokkurinn; stökk hann þá upp á bita fjögra álna hátt hlaup og síðan hljóp hann bita af bita; en þeir eltu hann og hjuggu í ristar honum svo hann féll niður og féll hann þar og þeir allir; hafði hann þá fengið þrjú sár og tuttugu.

Það er mælt að Ásbjörn væri átján vetra er hann var veginn á Grund. Hann bar af hverjum manni fegurð og kurteisi og allar íþróttir. Síðan lét Helga þá þar heygja að fornum sið er síðan heitir Danskihóll.[1]

Örn bróðir Helgu var skrautmenni mikið og allra manna fríðastur og vel viti borinn, en Eyvindur var svartur yfirlits og myrkur í skapi og illmenni mikið; var hann af því kær mjög Helgu.

Eitt sinn falaði Helga land að Birni bónda í Samkomugerði, en hann vildi fyrir engan mun selja; er mælt að hún fengi Eyvind til þess að koma honum fyrir, en kastaði eign sinni á landið og annað fé hans.

Eitt sinn voru þeir bræður að heimboði á Grund. Ræðir þá Helga við þá að hún vill láta grafa sig í hól[2] þeim er stæði upp undan bænum á Grund, með öllu lausafé sínu og kveðst vilja að þeir létu og heygja sig þar er hún gæti séð til þeirra ef hún færi upp á hólinn. Þetta binda þau fastmælum. Helga lifði lengst þeirra systkina; lét hún heygja Örn í Arnarhól[3] og Eyvind í Eyvindarhól[4] sem svo hafa síðan heitið.

Og er Helga tók að eldast lét hún hola innan hól þann er hún hafði um rætt og skreyta innan á ýmsan hátt. Hún lét búa þar stofu mikla og setja stól í. Síðan andaðist hún og var sett í stólinn sem hún hafði fyrir mælt og var haugurinn síðan byrgður.

Sumir segja að Kollur bóndi á Æsustöðum væri bróðir Helgu, en eigi Örn í Yxnafelli. Kollur er heygður í Æsustaðatungum fram af Sölvadal að vestan.

Austur og niður á túninu á Grund sést stór tóft og aflöng sem á að vera smérskemmutóttir Helgu.


  1. Danskihóll stendur fyrir sunnan og ofan bæinn á Grund í túninu. Hann er lágur og hnöttóttur, en þó dreginn til endanna nokkuð. Allur er hann vaxinn grasi.
  2. Helguhóll stendur allskammt frá Grund, upp undan bænum, að norðan við gil eitt er um rennur bæjarlækurinn. Hann er hár nokkuð og toppmyndaður. Uppi á honum stóð steinn einn eigi alllítill er fyrir skömmu hefur verið velt niður.
  3. Arnarhóll er á sléttu nokkurri fram við ána, suður og ofan undan Yxnafellskoti og yfir undan Samkomugerði. Hvergi er á honum steinn að teljandi sé. Hann er í lögun sem hvelft væri skipi.
  4. Eyvindarhóll er suður og upp undan Eyvindarstöðum í Sölvadal vestanverðum. Hann er eigi stór og í lögun sem upprökuð hrúga.