Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Guðnasteinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Guðnasteinn

Tvær eru sagnir um Guðnastein; önnur þessi, en hin að hann taki nafn af því að Eyfellingar hafi flutt þangað goðin öll er kristni var lögtekin á Íslandi og heiti hann því Goðnasteinn; væri hellir framan undir stein[in]um og þar hefði þeir látið goðin. Í haust (ᴐ: 1864) tóku sig þrír drengir saman um að ganga á jökulinn og skoða Guðnastein. Fóru þeir með vænar broddstangir og mannbrodda. Þessir voru: Gísli í Selkoti Stefánsson stúdents og Sigurður Sveinsson á Rauðafelli, systkinasynir, og Oddur Pétursson á Rauðafelli. Þeir voru komnir nokkuð upp á jökulinn í sauðljósu. Víða var jökullinn ákaflega brattur, slakkar og gjár ærið margar, en skammt fyrir neðan steininn var jökullinn svo brattur að þeir máttu ekkert fara á snið, heldur þvert upp. Gjá er fyrir neðan klettinn, þó ekki breiðari en svo að snjóloft var yfir. Lögðu þeir þar á stangirnar og gengu svo á stöngunum. Engin merki sáu þeir til hellis undir steininum, heldur var hann þverhníptur að framan, hér um bil tíu mannshæðir, móberg og eitlar bláir í lögum, en móbergið eytt af vindstraumum svo fram úr tóku blásteinalögin. Ekkert var þar bruna- eður hraungrjót. Klöppuðu þeir ár og dag og nöfn sín á bergið. Jökullinn liggur fast inn undir steininn svo hellirinn gæti verið horfinn í jökulinn. Slétt er upp á steininn að norðanverðu og allt fram á brýnnar, en svo er bratt fyrir neðan að þó að hengijökull dytti nymdi hann ekki staðar fyrr en í gjánni. Fyrir vestan og neðan er gjá sú er eldinum spjó 1821. Gengu þeir svo vestur og niður frá steininum, því þar var ekki eins bratt. Ekki fundu þeir til magnleysis í fótunum þó að „sjálfan hreppstjórann Magnús Sigurðsson á Leirum sækti magnleysi í fæturnar“ við uppgöngu á jökulinn, og komst hann þó ekki nærri svo hátt.