Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Guðrún glímna og Grímur Fljótshlíðingur

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Maður er Grímur nefndur; hann ólst upp á bæ þeim í Fljótshlíð er Gláma hét. (Sá bær er nú eyddur og af Þverá afbrotinn.) Grímur var snemma þreklegur að vexti og burðum, en mest kvað þó að glímni hans af því sem um er getið. Og svo fór að enginn maður þurfti að reyna við hann glímur hvörki til sjós né sveita. So varð hann mikill af þessu að hann fór að spyrja eftir hvar mestir glímumenn væru, og hvar sem hann af þeim frétti gjörði hann sér ferð til þeirra að reyna hreysti sína og fór so jafnan að hann hafði sigur. Eitt sinn þegar hann er í verplássi hvar margir menn eru saman komnir úr ýmsum áttum þá er hann að spyrjast fyrir um glímumenn. Þá segir einn maður að ef hann vilji reyna sig skuli hann fara vestur á Hornstrandir og hitta þar konu eina sem Guðrún heiti á þeim bæ sem hann til nefnir. „Hún á gamlan bónda sem Jón heitir og eru efnug. Reyndu glímu við hana þó kona sé.“ Grímur mælti: „Kátlegt þykir mér ef ég get ei orðið kvensterkur og þyki mér líkast að þetta sé mér af spotti sagt.“ Sá sem við Grím talaði segir að hann sjái það bezt þegar reyni, en víða sé sér nokkuð kunnugt og ekki sé hönum so mikið kapp á því að fá jafnræði sitt sem hann láti ef hann nenni ei að bregða sér spöl þennan. Grímur spyr manninn hvaða leið hann eigi að fara. Hinn vísar hönum leiðina skemmsta, en segir að hann kunni þá líka að verða einhvers fleira var. Hér á eftir þegar Grímur er tilbúinn fer hann með nesti og nýja skó og gengur eftir leiðsögn mannsins unz hann kemur í dalbyggð nokkurja. Þar sér hann bæ einn stóran nokkuð og virðist hönum sem þar muni samkvæmi nokkuð vera því þar var margt fólk og hestar margir saman komnir. Þar var einn hestur afar stór með kvensöðli stórkostlegum og er stigi settur upp með hestinum til að ganga upp í söðulinn. Grími þykir þetta kátlegt og spyr þá sem næstir stóðu hvað þetta eigi að þýða. Þeir segja að kona sú sem eigi hestinn sé so stór og þung að enginn geti sett hana á bak. Grímur brosti að orðum þessum og segir: „Það er mikil kona sem enginn getur á bak komið.“ Bráðlega eru konunni borin orð komumanns soleiðis að ókenndur maður bjóðist til að setja hana á bak. Litlu síðar kemur fólk út úr bænum og þar á meðal kona sem bar höfuð yfir allan hópinn og að því skapi gild. Hún spyr hvar sá maður sé sem hafi boðizt til að setja sig á bak. Maðurinn gefur sig fram, en segir að það sé á sig rangfært að hann hafi boðizt til að láta hana á bak; hitt segist hann hafa sagt að það væri mikil kona sem enginn gæti sett á bak. Konan segir: „Ef þú setur mig vel á bak skal ég borga þér ómakið; annars er óvíst að þú farir jafnglaður burt sökum ummælanna.“ Grímur gengur að konunni þegjandi, tekur hana á öxl sér, fer með hana að hestinum, kastar stiganum frá sér með annari hendinni og setur hana með hægð í söðulinn. Hún mælti: „Sett getur þú konu þína á bak ef nokkur er eða verður,“ – tekur spesíu úr vasa sínum og gefur hönum. Síðan fer hann leiðar sinnar og greinir ei af ferðum hans fyr en hann kemur á bæ þann sem kona þessi bjó er hönum var á vísað. Þangað kom hann síðla dags og beiðist gistingar og fékk hann þar allgóðan beina. Daginn eftir er gott veður og hefur þá komumaður lítið ferðasnið á sér, en spyr hins og annars. Bónda sá hann og leizt hönum hann drengilegur, en gamall mjög. So fór Grímur að gefa sig á tal við konuna og segist eiga erindi við hana og so allan tilgang sinnar þarkomu. Þá hlær konan og mælti: „Aldrei vissi ég jafnheimskan mann að láta narra sig landið á enda til að glíma við einn kvenmannsræfil sem kvalizt hefur á harðasta útkjálka landsins.“ Ekki vill Grímur hætta við so búið; hann segist ekki trúa því að so hafi verið skrökvað að sér að hún hafi ei meira til að bera heldur en hvör annar kvenmaður sem hann hafi áður séð, og leggur hann fast að henni með að reyna glímuna, og so fer að hann gefur henni spesíuna sem stóra konan gaf hönum fyrir baksetuna og þá lætur hún leiðast til með því skilyrði að hann ekkert misþyrmi eða meiði sig, og lofar hann því að fara vel með hana í alla staði. Síðan búast þau til glímunnar á sléttum velli og taka til glímu og eru að því hér um bil hálfan daginn og vinnur hverugt, en bæði urðu þreytt og móð og tóku hvíld um stund. Síðan taka þau saman í annað sinn og eru enn nú langan tíma að þangað til að hann dettur á annað hnéð. Þá spyr hún hann hvört hann sé nú ei ánægður með að hætta, en hann segir það megi vel vera. Síðan er hann þar nótt aðra, en að morgni er ei ferðaveður og spyr konan hann þá hvört hann geti ei lagfært eða smíðað nokkuð. En hann sagði það lítið vera, en hvað hann gæti skyldi hann gjöra. Maðurinn var verkmaður góður og laglega hagur bæði á tré og járn. Hann vinnur so hitt og þetta um daginn og so dregst þetta tíminn að hún biður hann vinna hitt og þetta að hann dvelst þar um hálfan mánuð. Þá leggst konan á gólf og elur sveinbarn og þegar það er af staðið segir hún við Grím: „Skeð gat að skemur hefði staðið á glímunni ef ég hefði verið alveg heil heilsu.“ Því næst býst hann til ferðar og kveð[ur] konuna og heimafólkið. En um leið og hann fer segir konan: „Ef so ólíklega fer að ég gjöri þér orð með eitthvað þá áttu að verða við bón minni ef þú getur eða verður hindrunarlaus.“ Og lofar hann því. Síðan er ei getið athafna hans um hálft annað ár. En þá fær hann bréf frá glímukonu sinni þess efnis að hún biður hann koma til sín og gjörast fyrirvinna hjá sér því maður sinn sé dáinn. Grímur bregður skjótt við, selur hvað hann átti fyrir peninga og ferðast til konunnar og verður hún hönum alls hugar fegin. Hann tekur þar við búráðum og ektar konuna og unntust þau til ellidaga. Og endar so þessi saga.