Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Gull-Þórir

Úr Wikiheimild

Um hann fara enn ýmsar sögur á Vesturlandi. Það er sagt að hann hafi barizt við Ísfirðinga á Hvanneyri í Djúpadal; af þeim fundi dregur Ísfirðingagil og Breiðfirðinganes síðan nafn sitt þvi þeir sem fallið höfðu af Breiðfirðingum voru grafnir (heygðir) á nesinu, og hafa þar fundizt ýmsar fornmenjar síðan þegar þar hefur verið grafið. Á þessum fundi er mælt að báðar hendur hafi verið höggnar af Gull-Þóri og hafi hann þá steypzt í foss einn í dalnum sem síðan heitir Gull-Þóris foss. Sumt af auðæfum sínum hafði Þórir með sér í fossinn, en sumu hafði hann áður komið fyrir í Gull-Þóris keldu hinumegin fjarðarins.

Þó fer nokkuð tvennum sögum um þetta, því aðrir segja að Þórir hafi ekki látizt á þessum fundi, heldur öðrum. Ísfirðingar höfðu fengið mann til að njósna hvernig þeir gætu bezt komizt að Þóri og njósnarmaðurinn hafði sagt þeim að Þórir gengi oft aleinn yfir hjalla nokkurn í Djúpadal að fossinum. Þar gjörðu Ísfirðingar honum fyrirsátur og voru þeir saman þrjátíu. Þórir var þar við annan mann, en allt um það varðist hann þeim lengi. En loksins þegar sár bárust á Þóri og höggnar voru af honum báðar hendur tók hann hellu mikla og þunga og undan henni kistur tvær, stakk handleggsstúfunum í hringana sem voru í kistulokunum og steyptist svo með þær ofan í fossinn.