Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Gunnsteinsstaðakirkja

Úr Wikiheimild

Á Gunnsteinsstöðum hefur kirkja verið fyrir svo sem hundrað árum og var hún helguð Ólafi konungi hinum helga eins og sjá má af máldögum hennar og hét því Ólafskirkja. Hún hefur í fyrstu staðið góðan spotta fyrir utan og neðan bæinn, en áin (Blanda) braut hana af og nokkurn hluta vallarins með. Þar er nú slétt graseyri, en bakki fyrir ofan eyrina. Í bakka þessum hafa fundizt mannabein og það í þeirra tíð er nú lifa. Nú stendur kirkjan fyrir framan bæinn á hlaðinu og er nú höfð fyrir skemmu. Í kringum hana er lítill garður. Undir kirkju þessa hafa legið tvær hálfkirkjur (hlutakirkjur); önnur þeirra hefur verið á Auðólfsstöðum og er tóftin fyrir sunnan bæinn, en hin á Holtastöðum þar sem enn er kirkja. Máldagar Gunnsteinsstaðakirkju eru á skinni og eru til hjá biskupi.