Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hólamannahögg

Úr Wikiheimild

Snið:Header Vestfirðingar og Sunnlendingar hafa jafnan álitið Norðlendinga dugandismenn og skjóta til úrræða, en þó jafnframt gortara og oflátunga hvað sem þeir hafa til þessa.[1] Til þessa lýtur saga sú sem hér kemur, hvort sem hún er sönn eða mynduð.

Tólf menn frá Hólum ætluðu einu sinni suður á land til sjóróðra, en fengu moldöskubyl á Tvídægru svo þeir urðu þar allir úti nema einn. Hann komst hálfdauður af þreytu og helkalinn til næsta bæjar. Bóndinn á bænum, sem Hólamenn höfðu árinu áður hætt og misboðið erfði það við manninn, og í staðinn fyrir að veita honum, svo illa á sig komnum sem hann var, góðan beina, sagði hann með miskunnarlausri hæðni: „Nú eru Hólamanna klakksekkir farnir að léttast.“ Þá svaraði hinn þó hann væri kominn í opinn dauðann: „En fyrir það léttast ekki Hólamannahögg,“ og rak bónda um leið aleflis kjaftshögg. En svo var maðurinn kalinn að handleggurinn féll af honum við höggið og hann datt sjálfur dauður niður í sömu sporum.

  1. Þetta kemur og heim við það sem segir í gamalli dómabók að það sé gamalla manna mál að svo sé háttað fólki í fjórðungunum á Íslandi að fyrir vestan séu vísindamenn, fyrir norðan hofmenn, fyrir austan búmenn og fyrir sunnan mangarar og kaupmenn.