Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hafnarbræður (2)

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Það er sagt það hafi borið til eitt sinn í Höfn í Borgarfirði þegar þeir vóru uppalningsdrengir hjá foreldrum sínum Jón og Hjörleifur Árnasynir, þá bar það til eitt kvöld að faðir þeirra var ekki heima, en móðir þeirra var gengin til hvíldar, að hún biður pilta sína að skreppa fyrir sig út og taka inn þvott því hún kvað vera komið regn. Þeir kveikja ljós og fara fram. Þegar þeir komu fram í bæjardyrnar þá segir Hjörleifur til bróður síns: „Sjáðu það sem að er þarna neðan undir hurðinni!“ Jón lítur á og sér að það er mannshönd sem að heldur neðan undir hurðina kafloðin. Hann þrífur ljósið af Hjörleifi og ber að höndinni, en það kviknar fljótt í loðnunni og funaði upp, en í sama bili hvarf höndin. En Jón grýtti ljósinu og stökk inn í eldhús og þreif ás sem að þar var og skipar Hjörleifi að taka annan, og með þá stökkva þeir út og taka inn þvottinn og urðu ekki varir við neitt.

Það er líka sagt um þá sömu að þeir hafi eitt sinn verið á sjó snemma morguns í góðu veðri og það hafði verið hlaðafli að þeir hlóðu skipið og héldu svo til lands og báru allt upp úr því. Þegar það var búið þá vill Jón fara út aftur, en Hjörleifur aftók það að hann færi fyrr en hann væri búinn að fá að éta; svo að það varð að hann réði meira. Síðan héldu þeir heim. Svo var húsum hagað þar í bænum að hlaða var inn úr eldhúsi, fjögur stafgólf á lengd. Hjörleifur gengur inn í hana og inn að stafni og leggur sig svo þar út af og hefur einn stoðarsteininn undir höfðinu, því svo var hann oft vanur að gjöra. Hann sofnar skjótt og vaknar aftur við það að hann er dreginn á fótunum fram að hlöðudyrunum og þá getur hann losað sig og stendur upp, en sér öngvan. Síðan heldur hann inn á sama stað og sofnar skjótt, en vaknar aftur við sama draum og fyrr og ekki betri. Það fer á sömu leið og áður að hann er dreginn fram allt hlöðugólfið og fram að tröppunum og þá getur hann komið fótum fyrir sig og stekkur út og þegar hann kemur fram í bæjardyrnar þá sýnist hönum hann sjá á eftir manni út úr forskyggninu. Hann hugsar með sér að þetta muni vera strákurinn hann Jón bróðir sinn og stekkur út og ætlar sér að lúskra hönum fyrir alla frammistöðuna, en hann grípur í tómt. Þegar hann kemur út sér hann öngvan mann. Hann leitar svo hvar sem að hönum dettur í hug og finnur öngvan. Síðan hættir hann við og gengur til baðstofu og þá sér hann að Jón bróðir sinn er í sínu rúmi sofandi. Hann spyr hann að hvurt hann hafi verið að hvekkja sig, en hann kveður nei við og fólkið sagði að hann hefði komið inn og það fyrir löngu síðan svo það hefði ekki hann verið. Síðan gengur Hjörleifur sig fram í hlöðu aftur og sofnaði skjótt og varð einkis var, en hvað þetta var vissi enginn.