Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hagabræður og bóndadóttir frá Tungu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hagabræður og bóndadóttir frá Tungu

Staðarkirkja á Ölduhrygg á margar jarðir og ítök þó ekki séu mér kunnar sagnir um það hvernig slíkt hefur lagzt undir þá kirkju fremur en aðrar. Eitt af ítökum þessum er varphólmi einn í Hagavatni sem svo er nefnt nálægt jörðinni Haga. Sú er saga til þess að Staðarkirkja eignaðist hólmann að í Haga bjuggu einu sinni bræður tveir og segja sumir að þeir hafi hlaðið hólmann í vatninu þó aðrir segi að hann sé tilbúinn af náttúrunni. Af því varp var snemma gott í hólma þessum vildu þeir bræður búa til annan hólmann til og fluttu því einn vetur grjót mikið til þess út á vatnið meðan ís lá á því. En um vorið þegar ísinn leysti og grjótið sökk sáu þeir að meira grjót vantaði til að fullgera hólmann. Fóru þeir þá enn til og fluttu grjót út þangað á skipi, en týndust báðir í vatninu og fundust ekki. Hét svo móðir þeirra á Staðarkirkju að gefa henni varphólmann ef synir hennar fyndust. Litlu síðar rak þá upp báða við túnið í Haga og þannig eignaðist kirkjan varphólmann í Hagavatni.

Ein af Staðarkirkjujörðum heitir Tunga og komst hún á þann hátt sem hér segir undir kirkjuna: Einu sinni var ríkur bóndi eða prestur á Stað. Hann lét slátra feitum uxa fyrir jólin og sjóða hann upp úr skinni. Ríkur bóndi og velmetinn var þá í Tungu; hann átti dóttur eina. Hún gekk heim að Stað þegar búið var að sjóða uxann, stal bringukollinum og bar á burt með sér. Hún var elt og náð skammt frá Stað. En til þess að þessi blettur yrði ekki á ættinni vann faðir hennar það til að gefa kirkjunni á Stað jörðina Tungu.