Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hallgrímur póstur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hallgrímur póstur

Eftir Gunnar póst varð Hallgrímur póstur. Var hann þungfær og þókti seinn í ferðum; var lengi póstur og vildi geta verið tuttugu ár svo hann næði eftirlaunum. Þegar hann var búinn að vera nítján ár vildi amtmaður Stefán Þórarinsson hafa hann frá póststörfum og lét hann um veturinn mjög nauðugan heima sitja og fékk til annan að fara póstferðina; sá hét Daníel. Þegar Daníel var kominn af stað fyrir viku dó amtmaður snöggliga[1] og var þá ráðið að senda mann til stiftamtmanns að segja lát hans. Gekk það ógreitt að fá manninn, því enginn var kunnugur leiðinni, en stirt viðraði. Bauð Hallgrímur sig fram og fór hann ferð þessa. Var hann þá sem ungur í annað sinn og fór hraðfari. Komst hann fram hjá póstinum og viku á undan honum í Reykjavík. Þegar Hallgrímur sagði á leiðinni lát amtmannsins bætti hann við að hann hefði sett sig frá að hálfu, en sjálfur væri hann nú frá settur að öllu. Þegar Hallgrímur kom suður hafði hann mjög í skimpingum nýja póstinn og norður aftur kom hann [á] undan honum. Tók Hallgrímur nú aftur við póstgöngum og hélt fram mörg ár. Hann var ólæs á skrift, en svo vandaður og skilvís var hann þó með bréf að aldrei fóru bréf, sem með honum voru send, að óskilum.

  1. Stefán amtmaður Þórarinsson dó 12. marz 1823.